„Nokkrir tugir séraðgerðamanna bandaríska hersins eru nú í Eystrasaltslöndunum til að efla þjálfun og baráttuvilja hersveita gagnvart yfirvofandi ógn frá Rússum og til að bæta hæfni Bandaríkjamanna til að greina skuggalegar tilraunir Moskvumanna til að draga úr stöðugleika innan þessara fyrrverandi sovésku lýðvelda,“ segir í upphafi einna af höfuðfréttum The New York Times (NYT) mánudaginn 2. janúar.
„Þeir eru dauðhræddir við Rússa,“ segir Raymond T. Thomas hershöfðingi, yfirmaður séraðgerðasveita bandaríska varnarmálaráðuneytisins, sem var nýlega í Vilnius, höfuðborg Litháens, þegar hann lýsti fyrir blaðamanni NYT afstöðu lítilla herstjórna Lettlands, Litháens og Eistlands. „Þeir fara alls ekki leynt með það. Þeim er mikið í mun að njóta forystu okkar.“
Thomas hershöfðingi segir að vegna þessa séu bandarískir sérsveitarmenn jafnan í samstarfi við sambærilegar sveitir innan herja Eystrasaltslandanna eftir að hafa starfað náið með þeim í um áratug í Írak og Afganistan. Með Bandaríkjamönnunum fylgi háþróaður eftirlitsbúnaður og aðgangur að miklum upplýsingum sem aflað sé með leynd. Innan herja Eystrasaltsríkjanna hafi menn víðtæka þekkingu á hefðbundnum herafla Rússa og einnig tölvuhernaði þeirra sem færist mjög í aukana.
NYT segir óljóst hve mikinn stuðning Donald J. Trump sýni þessu framtaki eftir að hann tekur við forsetaembættinu 20. janúar. Ýmislegt sem hann sagði í kosningabaráttunni hafi farið fyrir brjóstið á ráðamönnum Eystrasaltsríkjanna.
Í vor koma 800 til 1.200 hermenn undir merkjum NATO til hvers Eystrasaltsríkjanna til að árétta samstöðuna innan bandalagsins með ríkjunum og til staðfestingar á að árás á eitt NATO-ríki jafngildir árás á þau öll.
Af hálfu stjórnvalda Eystrasaltsríkjanna hefur verið gripið til ýmissa aðgerða til að efla hervarnir landanna frá því að Rússar hófu valdbeitingu gagnvart Úkraínu fyrir tæpum þremur árum. Ríkin hafa tvöfaldað kaup sín á hergögnum og munu enn tvöfalda þau á næstu tveimur árum segir sérfæðingur IHS Markit, greiningarfyrirtækis í London.
Útgjöld vegna nýrra hergagna í Lettlandi, Litháen og Eistlandi hækkuðu í 390 milljónir dollara árið 2016 frá 210 milljónum árið 2014. Útgjöld til varnarmála hafa hvergi aukist hraðar en í Lettlandi og Litháen síðan 2014 segir í greiningu IHS Jane´s.
Íbúar Eistlands eru 1,3 milljón og þar eru 6.000 manns í fastaher landsins. Frá því að hernaðurinn hófst í Úkraínu hafa Eistlendingar lagt áherslu á að þjálfa fólk til þátttöku í varaliði hersins meðal annars með því að kenna skæruhernað.
Í Litháen hefur fræðslubæklingur um almannavarnir verið færður í nýjan búning. Þar er almenningi sagt til hvaða ráða skuli gripið komi til innrásar Rússa. Tugum þúsunda eintaka af þessum 75 bls. bæklingi hefur verið dreift. „Höfuðmáli skiptir að almennir borgarar sýni árvekni og vilja til andspyrnu – sé lögð rækt við að styrkja þessa þætti verður erfitt fyrir árásaraðila að skapa aðstæður til innrásar með her sínum,“ segir í bæklingnum.
Í Litháen var ákveðið árið 2015 að taka að nýju upp herskyldu fyrir karla á aldrinum 19 til 26 ára.