Home / Fréttir / Bandarískar Patriot-loftvarnaflaugar hugsanlega fluttar til Eistlands

Bandarískar Patriot-loftvarnaflaugar hugsanlega fluttar til Eistlands

Juri Ratas, forsætisráðherra Eistlands, og Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna.
Juri Ratas, forsætisráðherra Eistlands, og Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna.

Bandaríkjastjórn íhugar að koma fyrir Patriot-eldflaugakerfi í Eistlandi sagði Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, við Juri Ratas, forsætisráðherra Eistlands, á fundi þeirra sunnudaginn 30. júlí í Tallinn.

Bandaríska Patriot-kerfið er hreyfanlegt eldflaugakerfi til loftvarna bæði gegn flugvélum og eldflaugum.

Ratas forsætisráðherra sagði að þeir hefðu rætt fyrirhugaðar heræfingar Rússa skammt frá landamærum Eistlands. Þeir hefðu meðal annars lagt á ráðin um hvernig Eistlendingar, Bandaríkjamenn og fulltrúar NATO ættu að fylgjast með þeim og miðla upplýsingum sín á milli.

Tallinn, höfuðborg Eistlands, var fyrsti viðkomustaður Pence á ferð hans til Evrópu að þessu sinni en hann fer einnig til Georgíu og Svartfjallalands. Markmiðið er að sýna samstöðu Bandaríkjamanna með þjóðum þessara landa en stjórnvöld þeirra allra hafa lýst áhyggjum vegna yfirgangs Rússa.

„Boðskapur okkar til Eystrasaltsþjóðanna og boðskapur minn í Georgíu og Svartfjallalandi verður sá sami: Við stöndum með ykkur, bandamenn okkar hér í austurhluta Evrópu, við stöndum með ykkur í nafni friðar,“ sagði Pence við Fox News sjónvarpsstöðina.

Ratas sagði í yfirlýsingu vegna komu Pence til Eistlands:

„Sameiginlegur fælingar- og varnarmáttur NATO hefur styrkt Eystrasaltssvæðið og Bandaríkin eru ómetanleg til að tryggja öryggi í næsta nágrenni okkar og allri Evrópu.“

Litháar hvöttu Bandaríkjamenn til að flytja Patriot-flaugar til lands síns þegar bandaríski herinn kynnti þær í Litháen fyrr í mánuðinum eftir að hafa notað þær á æfingu þar. Skortur á öflugum loftvörnum er meðal þess sem veikir varnarmátt NATO í Eystrasaltsríkjunum.

Skammt er síðan Svartfellingar gengu í NATO. Georgíumenn hafa sýnt áhuga á aðild að bandalaginu. Árið 2008 lögðu Rússar undir sig hluta Georgíu með hervaldi. Giorgi Margvelashvili, forseti Georgíu, sagði fimmtudaginn 27. júlí að heimsókn Pence til landsins staðfesti enn á ný vilja Bandaríkjastjórnar til að efla varnir landsins.

Efnt verður til heræfingar með þátttöku 1.600 bandarískra hermanna í Georgíu á meðan Pence dvelst þar.

Miðvikudaginn 2. ágúst tekur Pence þátt í leiðtogafundi samtaka ríkja við Adríahaf sem haldinn verður í Podgorcia, höfuðborg Svartfjallalands. Þar hittir hann ríkisoddvita Albaníu, Bosníu-Herzegovinu, Króatíu, Kosovo, Makedóníu, Serbíu og Slóveníu.

 

 

Skoða einnig

Pútin hefur ekki tíma til kosningabaráttu í fjölmiðlum

Rússneska forsetakosningabaráttan hófst formlega laugardaginn 17. febrúar og þá staðfesti yfirkjörstjórnin og talsmaður Kremlverja ákvörðun …