
Bandaríski flugherinn heldur úti sex B-52 sprengjuvélum frá Fairford-herflugvellinum í Bretlandi. Þaðan hafa vélarnar flogið reglulega yfir norðurhluta Evrópu. Úr austri koma rússneskar sprengjuvélar af Tu-142, Tu-160 og Tu-95 gerð sem fara yfir Barentshaf og þaðan út á Norður-Atlantshaf.
Fimmtudaginn 28. mars flugu fimm B-52 sprengjuvélar yfir Noregshaf sagði í tilkynningu frá bandarísku flugherstjórninni í Evrópu. Frá Noregshafi flugu vélarnar í átt að Íslandi. Kvöldið áður höfðu ítalskar orrustuþotur við NATO-loftrýmisgæslu flogið frá Keflavíkurflugvelli í veg fyrir tvær Tu-142 rússneskar sprengjuvélar.
Þegar bandarísku sprengjuvélarnar voru yfir Noregshafi æfðu þær með norskum F-16 orrustuþotum.
Í fyrri viku var B-52 vélum flogið frá Bretlandi norður í Barentshaf. Þá voru samskonar vélar einnig á ferð yfir Eystrasalti, Svartahafi og utan lofthelgi Kyrrahafsstrandar Rússlands.
Sömu dagana og langdrægar sprengjuvélar Rússa og Bandaríkjanna voru á lofti á Noregshafi og í nágrenni Íslands var flugheræfingin Northern Wind í Norður-Svíþjóð. Milli 7.000 og 10.000 hermenn frá Svíþjóð, Noregi, Finnlandi, Bandaríkjunum og Bretlandi tóku þátt í æfingunni.