Home / Fréttir / Bandarískar B-52 sprengjuþotur æfa á norðurslóðum og í Evrópu

Bandarískar B-52 sprengjuþotur æfa á norðurslóðum og í Evrópu

B-52 sprengjuþota.
B-52 sprengjuþota.

Um sömu mundir og rætt er um að Donald Trump Bandaríkjaforseti vilji minnka ábyrgð Bandaríkjahers á vörnum Evrópu koma öflugustu sprengjuþotur Bandaríkjanna til æfinga á norðurslóðum, á Eystrasalti og við austur landamæri NATO.

Nokkrar af B-52 sprengjuvélum Bandaríkjanna sem hafa síðan á sjötta áratugnum myndað þriðju stoðina í langdræga bandaríska kjarnorkuheraflanum við hlið kafbáta og land-eldflauga verða á Bretlandseyjum í júní ásamt 800 sérþjálfuðum mönnum sem fylgja þeim.

Í kalda stríðinu hönnuðu Boeing-verksmiðjurnar og smíðuðu B-52 vélarnar til að þeim mætti fljúga inn yfir landsvæði óvinarins og kasta kjarnorkusprengjum á landsvæði hans. Nú eru vélarnar notaðar til flytja venjulegar sprengjur og má senda þær í leiðangra í mikilli fjarlægð frá heimavöllum sínum í Bandaríkjunum.

Í danska blaðinu Jyllands-Posten segir í tilefni af komu vélanna til æfinga í Evrópu núna að sumarið 2015 hafi það vakið verulega athygli þegar tvær bandarískar B-52 vélar fóru í lágflugi yfir Borgundarhólm þegar dönsku stjórnmálaflokkarnir efndu þar til árlegra fjöldafunda. Vélarnar tóku þátt í heræfingunni BALTOPS á Eystrasalti og var litið á yfirflug þeirra sem einskonar kveðju til Rússa sem árið áður höfðu æft árásarflug á Borgundarhólm þegar fjölmenni sótti samkomur flokkanna þar.

Herafli frá 14 löndum tekur þátt í BALTOPS-æfingunni á Eystrasalti í ár. Þar verða 50 skip og kafbátar auka mikils fjölda flugvéla. Þetta er í 45. sinn sem efnt er til æfingarinnar. Hún var fyrst árið 1972. Markmiðið er að æfa viðbragðshæfni NATO.

 

 

 

Skoða einnig

Úkraína hefur aldrei staðið nær NATO

Tveggja daga fundi utanríkisráðherra NATO-ríkjanna lauk í Brussel miðvikudaginn 29. nóvember. Þar var fjallað um …