
Bandaríska varnarmálaráðuneytið boðaði í tilkynningu mánudaginn 17. september að það ætlaði að taka þátt í flugvallarframkvæmdum á Grænlandi. Vivian Motzfeldt, utanríkisráðherra Grænlands, fagnaði þessu þriðjudaginn 18. september.
Á vefsíðu grænlenska útvarpsins, KNR, segir ráðherrann:
„Mér sýnist það öllum til gleði að nú komi skýrt í ljós að það sé greinilega til gagns að hafa varnarsamninginn, til þessa hafa Grænlendingar glaðst vegna hans.“ Vísaði ráðherrann þar til varnarsamningsins við Bandaríkin vegna Grænlands frá 1951.
Í viljayfirlýsingunni segir bandaríska varnarmálaráðuneytið að með því að leggja fé til flugvallarframkvæmdanna sé stuðlað að því að efla styrk Bandaríkjanna og NATO á Norður-Atlantshafssvæðinu auk þess sem fjárfestingin sé til hagsbóta fyrir Bandaríkin, danska konungsríkið og grænlensku þjóðina.
Engir sérgreindir flugvellir eru nefndir og ekki heldur fjárhæð. Grænlenski ráðherrann segir að um sé að ræða flugvelli sem gagnist bæði Grænlendingum og Bandaríkjamönnum og fjárfestingin snerti endurbætur á tækjakosti eða lengingu flugbrauta.
Bandaríska varnarmálaráðuneytið birti viljayfirlýsingu sína réttri viku eftir að danski forsætisráðherrann Lars Løkke Rasmussen ritaði undir samning í Nuuk um að danska stjórnin ætlaði að leggja allt að 1,6 milljörðum danskra króna (27,5 ma. ísl.kr.).
Með þátttöku dönsku og bandarísku ríkisstjórnanna er tryggt að ráðist verður í endurbætur á að minnsta kosti þremur flugvöllum á Grænlandi án þess að Kínverjar eigi þar hlut að máli eins og ætla mátti um tíma.