
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra og Robert O. Work, varavarnarmálaráðherra Bandaríkjanna, hittust á fundi í Reykjavík mánudaginn 7. september, Í tilkynningu um fund þeirra segir utanríkisráðuneytið að ráðherrarnir hafi rætt „tvíhliða öryggis- og varnarmálasamstarf Íslands og Bandaríkjanna sem gagnkvæmur áhugi er á að efla frekar“.
Í tilkynningunni segir einnig: „Þá ræddu ráðherrarnir málefni norðurslóða, en Bandaríkin gegna formennsku í Norðurskautsráðinu næstu tvö árin. Gunnar Bragi reifaði yfirstandandi vinnu stjórnvalda við hugsanlega viðbragðs- og björgunarmiðstöð á Íslandi og sagði norðurslóðir vera kjarnamál í utanríkisstefnu Íslands. Málefni Úkraínu og samskiptin við Rússland voru ennfremur til umræðu, sem og staða mála við botn Miðjarðarhafs og straumur flóttamanna til Evrópu.“
Í tilefni af komu bandaríska varnarmálaráðherrans hingað birtist frétt þriðjudaginn 8. september á vefsíðunni defensenews.com um að þann sama dag sitji ráðherrann fund í Osló með fulltrúum Danmerkur, Íslands og Noregs, aðildarríkja NATO, auk fulltrúa frá Svíþjóð og Finnlandi sem eru utan NATO.
Á leið sinni til Íslands sagði Bob Work við blaðamann defensenews.com að NATO stæði frammi fyrir þremur vandamálum. Tvö þeirra mætti rekja beint til Rússa, það er átökin í Úkraínu og aukin hernaðarumsvif umhverfis Evrópu. Hið þriðja væri hætta af hryðjuverkamönnum og vandi vegna mikils fjölda aðkomufólks í Suður-Evrópu sem mætti rekja til stöðunnar í Mið-Austurlöndum.
Bob Work sagðist einbeita sér að vandanum í norðri. Hann sagði að Íslendingar hefðu orðið varir við vaxandi umsvif Rússa og hefðu vaxandi áhyggjur vegna þeirra. Rússar færu nálægt Íslandi í langflugi sínu til annarra staða en þeir hefðu nýlega flogið oftar en einu sinni umhverfis Ísland og þess vegna hefðu Íslendingar áhuga á aukinni hernaðarsamvinnu („Iceland is interested in increasing military cooperation“ er haft eftir honum í fréttinni.)
Sagt er frá því að Work hafi rætt við íslenska embættismenn en einkum hlustað segir hann og farið um öryggissvæðið á Keflavíkurflugvelli þar sem áður hafi verið bandarísk herstöð þar til henni var lokað árið 2006 við brottför Bandaríkjamanna. Varnarsamstarf þjóðanna megi rekja til ársins 1951. Íslendingar hafi ekki her en landhelgisgæslan sinni öryggisgæslu og beri ábyrgð á viðhaldi bygginga til afnota fyrir herafla á Keflavíkurflugvelli.
Bandarískar hervélar noti flugvöllinn öðru hverju. Nýlega hafi til dæmis tvær F 16 orrustuþotur lent þar þegar bilunar var vart á leið þeirra yfir Atlantshaf. Work hafi hitt viðgerðarmenn sem sendir voru á vettvang í heimsókn sinni.
Þá segir frá því fréttinni að í apríl 2015 hafi nokkrar P-8A Poseidon eftirlitsvélar bandaríska flotans dvalist nokkra daga á Keflavíkurflugvelli til að kanna kosti þess að halda úti vélunum þaðan, eins og gert hafi verið í kalda stríðinu þegar P-3 Orion vélar hafi verið á vellinum.
„Flugskýlið sem reist var fyrir P-3 vélarnar er enn þarna,“ sagði Work áður en hann lenti á Íslandi. „Ég ætla að skoða það og fullvissa mig um að nota megi það að nýju.“ Hann sagði að skera yrði í bitann fyrir ofan hurðina á skýlinu til að stélið á P-8 vélum kæmist þar inn.
Blaðamaðurinn ræðir við Jón Guðnason, yfirmann landhelgisgæslunnar á Keflavíkurflugvelli, sem segir að mannvirkjum í Keflavíkurstöðinni hafi verið við haldið, þar sé mikið af auðu rými og mikið land sem megi nota undir mannvirki. Fór blaðamaðurinn í skoðunarferð með Jóni um svæðið og kynnti sér mannvirki sem má nota án fyrirvara eða fyrirvaralítið.
Á vellinum voru fjórar danskar F-16 orrustuþotur sem haldið er úti frá Keflavík.
Sagt er frá því að á vellinum sé á fjórum stöðum virkur búnaður sem notaður er til að stöðva orrustuþotur í lendingu með taugum, önnur bandaríska F-16 þotan notaði þennan búnað til að stöðvast þegar hún lenti vegna bilunar. Þá er blaðamanninum sýnt flugskýli fyrir B-52 sprengjuvélar sem sé ekki nothæft en hins vegar sé P-3 skýlið í góðu lagi og segist Jón Guðnason vilja sjá það meira notað.
Í fréttinni segir að þetta sé fyrsta heimsókn Work til Noregs, fer hann lofsamlegum orðum um framlag norska hersins við eftirlit. Ræða eigi við þá um samstarf vegna P-8 eftirlitsvélanna en þeir nota P-3 vélar. Þeir hafa gert samning um kaup á F-35 orrustuþotum og velta fyrir sér P-8 vélum.
Work ætlar til Þrándheims til að skoða hellana þar sem geymd eru hergögn sem bandarískir landgönguliðar geta notað í Norei. Þá ætlar hann til herstjórnarinnar í Bodö og fara í ferð með P-3 vél.
Frá Noregi fer hann til Bretlands, einnig í fyrsta sinn sem ráðherra.