.

Eftir að 2. floti Bandaríkjanna var virkjaður að nýju í maí á þessu ári með höfuðstöðvar í Norfolk í Virginíuríki hefur einnig verið ákveðið að þar verði ný Atlantshafsherstjórn NATO eins og var í kalda stríðinu. Innan herstjórnakerfis NATO féll Keflavíkurstöðin, flotastöð Bandaríkjanna á Íslandi, undir Atlantsherstjórnina. Nú stefnir bandaríski flotinn að því að halda rússneskum kafbátum í skefjum langt fyrir norðan GIUK-hliðið.
Sama dag og 2. flotastjórnin tók formlega til starfa að nýju, 24. ágúst 2018, birtist grein um hana í tímariti Bandarísku flotastofnunarinnar, US Naval Institute, USNI News, eftir Sam LaGrone. Þar er fjallað um endurnýjað hlutverk 2. flotans í samtali við John Richardson, yfirmann aðgerðasviðs bandaríska flotans. Hann segir að aðgerðasvæði 2. flotans nái langt norður fyrir GIUK-hliðið, hafsvæðið frá Grænlandi um Ísland til Bretlands, allt norður fyrir Skandinavíu-skaga og heimsskautsbaug í áttina að kafbátahöfnum Norðurflota Rússa á Kólaskaga við Barentshaf.
„Nýi 2. flotinn eykur strategískan sveigjanleika okkar til að veita andsvar frá austurströndinni [Bandaríkjanna] til Barentshafs,“ segir Richardson. „Af hálfu stjórnenda 2. flotans verður litið á Norður-Atlantshaf sem eitt samfellt aðgerðasvæði og þeir munu senda úthaldsflota til aðgerða á þeim stöðum þar sem hans er talin þörf.“
Richardson og Andrew Lewis, flotaforingi, nýr yfirmaður 2. flotans, sögðu að endurreisn flotans og stjórnar hans mætti rekja til varnarstefnunnar sem James Mattis varnarmálaráðherra hefði mótað en þar væri á ný vísað til „keppni stórvelda“ í stað lágspennu landhernaðar Bandaríkjamanna frá árinu 2001.
„Við látum ekki við það sitja að taka upp þráðinn þar sem hann var skilinn eftir. Við ætlum af krafti og með hraði að endurreisa þessa herstjórn og gera hana að virkum aðila sem er tilbúinn til átaka,“ sagði Lewis.
Í greininni er vísað í samtal við Bob Work, fyrrverandi vara-varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, sem segir að ákvörðunin um að færa ytri mörk aðgerðasviðs 2. flotans að heimadyrum Rússa sé í samræmi við stefnuna sem kennd sé við Mattis. Þetta sýni að Bandaríkjamenn standi vaktina. Keppnin við Rússa sé einkum háð neðansjávar. Besta leiðin til að fylgjast með þeim sé að hleypa þeim ekki út á úthöfin.
Í greininni er bent á að mikil áhersla hafi verið lögð á að auka árásar-kafbátaflota Rússa og slagkraft hans með nýju Kalibir-flugskeyti sem dragi allt að 1000 mílum.
Kalibir-flugskeyti var skotið allt að 400 mílum í fyrra þegar rússneski kjarnorkuknúni árásar-kafbáturinn Severodvinsk var notaður til að skjóta flaugunum úr kafi á skotmörk á landi. Rússar hafa einnig notað þessar flaugar í hernaði sínum í Sýrlandi. Vegna langdrægni flauganna geta Rússar ógnað borgum á meginlandi Evrópu frá Norður-Atlantshafi.
Rætt er við Magnus Nordenman, vara-forstjóra Scowcroft-hernaðar- og öryggisstofnunar Atlantic Council í Washington. Hann er höfundur væntanlegrar bókar: The New Battle for the North Atlantic: Emerging Naval Competition with Russia in the Far North. – Nýja orrustan um Norður-Atlantshaf: Ný flotakeppni við Rússa á norðurslóðum. Hann sagði við USNI News:
„Í ákvörðuninni um að fela 2. flotanum hlutverk í Barentshafi felst viðurkenning á einum mikilvægasta þætti nýrrar flotasamkeppni á Norður-Atlantshafi. Þetta gerist mjög norðarlega, ekki við eða fyrir sunnan GIUK-hliðið og snýst ekki um að verja skipalestir bandamanna á leið yfir Atlantshaf.“
Áður en nýja flotastjórnin tók formlega til starfa 24. ágúst höfðu fleiri bandarísk herskip en áður þegar verið send til starfa á Norður-Atlantshafi. Nokkrir bandarískir tundurspillar hafa í sumar verið á Noregshafi. Þar til í ár hafa bandarískir tundurspillar búnir fullkomnum kafbátarleitarbúnaði almennt ekki verið við æfingar á þessum slóðum.