Home / Fréttir / Bandaríska utanríkisráðuneytið vill jafna ágreining við ESB vegna Íranssamningsins

Bandaríska utanríkisráðuneytið vill jafna ágreining við ESB vegna Íranssamningsins

 

Donald Tusk flytur skammarrræðu um Trump í Sófíu.
Donald Tusk flytur skammarrræðu um Trump í Sófíu.

Bandarískir embættismenn leggja áherslu á að samskipti stjórnvalda í Bandaríkjunum og Evrópu hafi ekki skaðast vegna þess að Bandaríkjastjórn hefur sagt skilið við Íranssamninginn.

„Það er fleira sem sameinar okkur en sundrar,“ sagði Brian Hook, yfirmaður stefnumótunarsviðs bandaríska utanríkisráðuneytisins, við blaðamenn föstudaginn 18. maí. „Það er gert of mikið úr ágreiningi milli Bandaríkjanna og Evrópu.“

Hann sagði að hollustan við sameiginleg gildi og skuldbindingar gagnvart sameiginlegum verkefnum í öryggismálum mundu vega þyngra en ágreiningur vegna Íranssamningsins.

Hook lét þessi orð falla eftir að Donald Tusk, forseti leiðtogaráðs ESB, fór hörðum orðum um Bandaríkjastjórn vegna ágreinings um fríverslun og vegna aðskilnaðar við Íranssamninginn.

Þegar Donald Trump Bandaríkjaforseti var spurður um orð Tusks sagði hann að ESB hefði komið „hroðalega“ fram við Bandríkin í viðskiptamálum.

„Við töpuðum 151 milljarði dollara í fyrra í viðskiptum við Evrópusambandið,“ sagði Trump fréttamönnum fimmtudaginn 17. maí og vísaði til viðskiptahallans við ESB-ríkin 28. „Þeir geta kallað mig hvað sem þeir vilja. Væri ég í þeirra sporum mundi ég einnig senda mér tóninn vegna þess að þetta mun ekki gerast aftur.“

Eftir að Trump sagði Bandaríkin frá Íranssamningnum setti Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sig í símasamband við starfsbræður sína í Bretlandi, Frakklandi og Þýskalandi. Embættismenn segja að samtölin hafi snúist um leiðir til að sameinast um „nýja afstöðu“ til Írans í öryggismálum.

Framkvæmdastjórn ESB hefur gefið evrópskum fyrirtækjum fyrirmæli um fara ekki að kröfum Bandaríkjastjórnar um viðskiptabann gagnvart Íran. Á þennan hátt vill hún stuðla að því að Íranssamningurinn gildi áfram fyrir utan að verja  evrópska viðskiptahagsmuni.

„Okkur er skylt að vernda evrópsk fyrirtæki,“ sagði Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar ESB, að loknum fundi leiðtogaráðs ESB í Sófíu í Búlgaríu fimmtudaginn 17. maí. „Við verðum að grípa til aðgerða, þess vegna hefjum við þetta ferli.“

Juncker sagði að framkvæmdastjórnin mundi setja af stað ferli til að virkja svonefnt „lokunarákvæði“ sem bannar evrópskum fyrirtækjum að hlíta refsiaðgerðunum eða dómsniðurstöðum sem fela í sér kröfu um að fara að fyrirmælum Bandaríkjastjórnar.

Mike Pompeo utanríkisráðherra flytur ræðu mánudaginn 21. júní og verður það fyrsta stórræða hans um afstöðuna til Írans eftir að Bandaríkjastjórn sagði sig frá samningnum.

Bandarískir eftirlitsmenn segja að stjórnin í Washington vilji  pólitíska samstöðu sem nái til „allra ógnana frá Íran“, undir það falla bæði kjarnorkumál og tilraunir Íransstjórnar til að grafa undan stöðugleika í Mið-Austurlöndum.

„Hér er um að ræða margvíslega þætti sem snerta kjarnorkuáætlunina – eldflaugar, dreifingu eldflauga og eldflaugatækni, stuðning við hryðjuverkasamtök og árásargjarnar ofbeldisaðgerðir sem ýta undir borgarastríð í Sýrlandi og Jemen,“ sagði Hook.

„Í okkar augum gefur þetta okkur tækifæri næstu mánuði til frekari aðgerða í samvinnu við mörg ríki sem eru einnig andstæð dreifingu kjarnorkuvopna, hryðjuverkum og borgarastríðum í þessum heimshluta, við gerum miklar vonir um að diplómatían skili árangri.“

 

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …