
Karl Schultz, forstjóri bandarísku strandgæslunnar, sagði á fundi með fréttamönnum í Washington fimmtudaginn 6. desember að líkur væru á að fjárveiting fengist fyrir smíði nýs, stórs ísbrjóts fyrir strandgæsluna.
Bandaríkjamenn eiga tvo ísbrjóta sem nota má á heimskautasvæðum. Polar Star er stór ísbrjótur. Hann er kominn til ára sinna, 42 ára gamall, og hefur verið haldið úti áratugi lengur en ætlað var. Healy er meðalstór ísbrjótur, ætlaður til rannsókna.
Til samanburðar má nefna að Rússar eiga 40 til 50 ísbrjóta sem hannaðir eru til björgunarstarfa, sem birgðastöðvar og til að bregðast við olíuleka við erfiðar heimskautaaðstæður.
Karl Schultz sagðist sæmilega bjartsýnn um að fyrsti, nýi ísbrjóturinn kæmi brátt til sögunnar. Nauðsyn hans væri ljós þegar litið væri til vísindarannsókna á heimskautunum þar sem finna mætti mikið af jarðgasi, olíu, steinefnum, fiski og ferskum vatnslindum.
Hann sagði að þátttaka Bandaríkjamanna í ýmiskonar samstarfi eins og Norðurskautsráðinu krefðist þess að þeir ættu tækjakost sem félli að þessari samvinnu. Minnti hann á að snemma árs hefðu Kínverjar lýst landi sínu sem „næstum heimskautaríki“ og áréttað nauðsyn þess að nýta heimskautin og í því skyni smíðuðu þeir nýja ísbrjóta.
„Alþjóðasamskipti og samvinna eru í raun hol og grunn séu menn ekki á staðnum,“ sagði Schultz og taldi nauðsynlegt fyrir Bandaríkjamenn að ráða minnst yfir sex ísbrjótum. Hver um sig kynni að kosta um einn milljarð dollara og reikna mætti með 10 ára smíðatíma. „Séum við ekki á staðnum, ef við helgum okkur ekki umhverfið í dag, hver haldið þið að eigi það á morgun – keppinautar okkar.“
Ríkisstjórn Donalds Trumps gerir fjárlagatillögu um 750 milljónir dollara til að smíða nýjan ísbrjót. Enn er óvíst hvort Bandaríkjaþing samþykkir hana.
Bandaríska strandgæslan fellur undir heimaöryggisráðuneytið. Fjárlagatillögur þess fyrir árið 2019 hafa ekki enn verið afgreiddar. Stefnt er að því að þingið afgreiði fyrir 21. desember hvernig fjármagna skuli opinbera starfsemi út fjárlagaárið 2019 en því lýkur 30. september. Fyrir þinginu liggur 450 milljarða dollara tillaga um hvernig þessari opinberu fjármögnun skuli háttað.
Heimild: Reuters