Home / Fréttir / Bandaríska kosningabaráttan: Kúvending í afstöðunni til Pútíns og Rússa

Bandaríska kosningabaráttan: Kúvending í afstöðunni til Pútíns og Rússa

Hillary Clinton og Donald Trump - kappræðurnar miðvikudag 19. október.
Hillary Clinton og Donald Trump – kappræðurnar miðvikudag 19. október.

 

Hillary Clinton tók afdráttarlaust af skarið um það á miðvikudagskvöldið að sigri hún Donald J. Trump í næsta mánuði muni hún stíga inn í Hvíta húsið í meiri ágreiningi við Rússa en nokkur forseti hefur gert í meira en þrjá áratugi og persónuleg andúð hennar á Vladimír V. Pútín, leiðtoga þeirra, er djúpstæð.“

Á ofangreindum orðum hefst fréttaskýring í The New York Times (NYT) föstudaginn 21. október. Vitnað er í Stephen Sestanovich, starfsmann utanríkisráðuneytisins í forsetatíð Bills Clintons, sem segir: „Þessi tónn í þá veru að ekki sé unnt að treysta þessum gaurum hefur ekki heyrst frá því á dögum Ronalds Reagans. Þá beindu menn þó einkum gagnrýni sinni að  stjórnkerfinu og Sovétríkjunum sjálfum. Nú beinist hún að Pútín persónulega.

Bent er á að það sé nýmæli í viðræðum við repúblíkana að forsetaframbjóðandi demókrata dragi upp mynd af Pútín sem nýjasta erkifjanda Bandaríkjanna með ásökunum um að undirmenn hans brjótist inn í tölvur höfuðstöðvar demókrata í Brooklyn, geri loftárásir á almenna borgara í Sýrlandi og hafi í hótunum við Úkraínumenn og bandamenn innan NATO í Evrópu. Minnt er á að hún hafi afhent rússneska utanríkisráðherranum stóran, rauðan reset hnapp í mars 2009 (með vitlausri rússneskri stafsetningu) og þess vegna hafi breytt afstaða hennar í garð Rússa í kappræðunum við Trump verið enn meira sláandi en ella hefði verið.

Það er samhljómur á milli hennar og talsmanna Obama forseta þegar þau fullyrða að stefna sín hafi verið rétt þar til Pútín komst að þeirri niðurstöðu að hann græddi meira á því að endurvekja spennu í anda kalda stríðsins en að halda áfram aldarfjórðungs viðleitni til að nálgast Vesturlönd. Nú hallast stór hluti áhrifamanna í utanríkismálum meðal demókrata að svipaðri hörku og Hillary Clinton sýnir gagnvart Rússum og öruggt er að þetta viðhorf mun vara lengur en út kosningabaráttuna.

Þessi nýi tónn í málflutningi demókrata vekur ekki einn undrun NYT. Þar er ekki síður talið undarlegt hvernig tónninn hefur breyst hjá repúblíkönum. Ekki eru nema fjögur ár liðin frá því að Mitt Romney, þáv. forsetaframbjóðandi repúblíkana, varaði við hættunni af Rússum og Obama forseti sagði að Romney hljómaði eins og rödd frá níunda áratugnum sem vildi taka upp sömu utanríkisstefnu og þá var fylgt og forsetinn sagði einnig: „kalda stríðinu lauk fyrir 20 árum“.

Blaðið segir að innan flokks repúblíkana beri flestir lítið traust til Rússa. Það eigi þó ekki við um merkisbera þeirra, hr. Trump.

„Ættu Bandaríkjamenn samleið með Rússum væri það ekki svo slæmt,“ sagði hann í kappræðunum miðvikudagskvöldið 19. október. Hann vék ekki einu orði að landafíkn Pútíns. Þess í stað hvatti hann áhorfendur til að „líta á „Start Up“ [sprota] sem þeir hafa undirritað“ og segir NYT að Trump hafi greinilega ruglast á orði sem notað er í Kísildalnum í Kaliforníu og nýja START-samningnum sem var ritað undir árið 2010. Hann sagði vandann vera að Rússar væru að eignast fleiri kjarnorkuvop en Bandaríkjamenn. Þetta er ekki rétt vegna umsaminna takmarka. Kappræðurnar tóku þannig að snúast um hvor frambjóðendanna væri strengjabrúða Pútíns.

Hvað eftir annað hefur Trump fullyrt það sama og hann gerði á miðvikudagskvöldið að Bandaríkjamenn hefðu enga hugmynd um hver hefði brotist inn í tölvur í höfuðstöðvum demókrata og aðstoðarmanna Hillary Clinton. „Pútín hefur leikið á hana og Obama á öllum sviðum“ frá Sýrlandi til þróunar nýrra eldflauga, sagði hann.

Dögum saman hefur það leitt til vandræða fyrir Hillary Clinton að birt hafa verið tölvubréf eignuð kosningastjóra hennar, John D. Podesta, vegna þess að brotist var inn í tölvu hans. Fimmtudaginn 20. október birtust síðan í fyrsta sinn bréf frá póstreikningi sem Obama forseti notaði þegar hann bjó sig undir að taka við forsetaembættinu árið 2008. Enginn veit hvort birtingu stolinna bréfa verður hætt eða hún eykst einfaldlega og magnast eftir því sem nær dregur kjördegi.

Obama forseti hugar að gagnaðgerðum sem að sögn nokkurra háttsettra embættismanna kynnu að fela í sér árásir innan Rússlands til að afla upplýsinga um spillingu á hæstu stöðum og valda þannig Pútín vandræðum. Hvort Obama grípur til slíkra ráða er óljóst þótt Joseph R. Biden varaforseti hafi fyrir viku hótað Pútín að hann fengi að finna til tevatnsins.

Hvað sem öðru líður er ljóst að sigri Hillary Clinton telur hún sig eiga persónulegra harma að hefna gagnvart Pútín og það fylgir henni inn í Hvíta húsið. Hann lítur hana hins vegar ekki réttu auga eftir yfirlýsingar hennar árið 2011 um að efast mætti um rétta framkvæmd og gildi þingkosninga í Rússlandi sama ár.

Sesranovich segir að Pútín noti þennan umþóttunar- og breytingatíma í bandarískum stjórnmálum til að bæta stöðu sína. Hann beiti aðferðum upplýsingastríðs í Bandaríkjunum sjálfum, hann ógni Úkraínumönnum og stofni til mikilla heræfinga við landamæri Noregs.

Það undrar engan að ýmsum vinstrisinnuðum demókrötum finnst nóg um þetta. „Það má að mestu rekja gálausar stimplanir á Trump sem útsendara Rússa til kosningabaráttu Hillary Clinton,“ sagði Stephen F. Cohen, prófessor emeritus frá New York háskóla og Princeton við CNN í sumar. „Þetta verður endilega að stoppa.“

NYT segir að margir innan flokks demókrata hafi í áratugi lagt mikið undir til að skipa ráðamönnum í Moskvu sess meðal Vesturlanda. Þetta megi rekja til forsetatíðar Bills Clintons og þegar hann hitti Bóris Jeltsín, þáv. Rússlandsforseta, í fyrsta skipti. Þá hafi verið hafist handa að stækka G 7 ríkjahópinn og bæta við 8. ríkinu. Einnig hafi langt ferli til að tryggja Rússum aðild að Alþjóðaviðskiptastofnuninni hafist og þar með innleiðing vestrænna viðskiptareglna í landinu. Á fyrstu fimm forsetaárum sínum samdi Obama um 80% fækkun í kjarnorkuherafla beggja ríkja, hvor aðili mætti halda úti 1.550 virkum kjarnaoddum í samræmi við nýja START-sáttmálann.

Sáttmálinn er í gildi. Þó er deilt um ný vopn og Pútín hljóp fyrir skömmu frá ákvæðum um eyðingu birgða af plútóníum til hernaðarnota og vísaði í því sambandi til versnandi samskipta við Bandaríkjamenn.

Nú segir Trump að hann geti snúið þessu öllu til betri vegar með góðum samningum verði hann forseti.

„Mér finnst ég sjái sjálfan mig á fundi með Pútín og á fundi með Rússum áður en stjórn [mín] tekur til starfa,“ sagði Trump í samtali við spjallþáttarstjórnandann Michael Savage í vikunni. „Ég held það yrði dásamlegt.“

Heimild: The New York Times

 

 

 

 

Skoða einnig

NATO-aðild Úkraínu til umræðu í Moldóvu og Osló

Í gær (1. júní) lauk tveggja daga óformlegum utanríkisráðherrafundi NATO-ríkjanna í Osló. Þá var einnig …