
Eistlendingar hafa tekið á móti fyrstu bandarísku hergögnunum sem Ashton Carter varnarmálaráðherra lofaði að senda þeim og öðrum Aurstur-Evrópuþjóðum á ferð sinni til þeirra í júlí 2015.
Fyrir viku voru 40 vígdrekar fluttir til Tapa-herstöðvarinnar um 90 km fyrir austan höfuðborgina Tallinn. Fleiri hergögn bárust síðan um miðja vikuna og um miðjan nóvember berst þriðja sendingin. Meðal tækjanna sem landað hefur verið eru þrír skriðdrekar af M1A2 Abrams-gerð og bryndrekar af Bradley-gerð.
Hergögnin verða í höndum hreyfanlegrar herdeildar sem ferðast mun um Eistland, Lettland, Litháen, Pólland, Rúmeníu og Búlgaríu. Henni er ætlað að minna á og staðfesta að löndin eru öll hluti sameiginlegs varnarkerfis NATO.
Þegar Carter kynnti áform Bandaríkjastjórnar í þessu efni sagði hann markmiðið að tryggja varnir bandamanna Bandaríkjanna en ekki að stofna til vandræða við Rússa.
Um svipað leyti sagði embættismaður bandaríska varnarmálaráðuneytisins að ætlunin væri að nýta 90 skriðdreka, 140 Bradley-bryndreka og 20 M109 hreyfanlega skotpalla auk fylgibúnaðar í þágu þessa verkefnis. Liðsafli yrði sendur á vettvang til æfinga með herjum annarra NATO-ríkja.
Heimild: Baltic Times