Home / Fréttir / Bandarísk hættuviðvörun gegn stríði í Úkraínu

Bandarísk hættuviðvörun gegn stríði í Úkraínu

 

Liðsmaður í her Úkraínu á æfingu.

Bandaríkjastjórn hefur látið bandamönnum sínum í Evrópu í té trúnaðarupplýsingar og landakort frá njósnastofnunum sínum sem sýna hersafnað Rússa og stórskotalið þeirra sem býr sig undir víðtæka skyndisókn inn í Úkraínu frá mörgum ólíkum stöðum ákveði Vladimir Pútin Rússlandsforseti að stofna til innrásar og hernaðarátaka.

Alberto Nardelli og Jennifer Jacobs birta langa  fréttaskýringu um hættuna á stríði í Úkraínu á vefsíðu Bloomberg-fréttastofunnar sunnudaginn 21. nóvember.

Þau segja að leynilegu upplýsingunum hafi verið miðlað undanfarna daga til að staðfesta réttmæti viðvarana frá Washington um að beita verði Pútin auknum diplómatískum þrýstingi til að fæla hann frá árásaráformum sínum. Verði ekkert að gert kunni hann að senda her sinn af stað snemma árs 2022.

Í gögnunum er því lýst að hugsanlega verði her sendur inn í Úkraínu frá Krímskaga og yfir landamærin frá Hvíta-Rússlandi. Allt að 100.000 hermenn kynnu að taka þátt í þessari innrás. Áhersla yrði lögð á að nýta sér þann árstíma þegar frost er í jörðu og óbyggð svæði því greiðfær fyrir hvers kyns vígdreka og þungavopn.

Haft er eftir tveimur heimildarmönnum að ýmsar liðssveitir séu þegar í sóknarstöðu og lögð sé áhersla á að flugherinn geti staðið að baki sókn þeirra. Þeir sögðu einnig að frá Moskvu hefðu komið fyrirmæli um að kallaðar yrðu út varaliðssveitir, tugir þúsunda manna, meiri fjöldi en nokkru sinni frá því að Sovétríkin hrundu fyrir 30 árum. Bentu þeir á að hlutverk varaliða í átökum væri að viðhalda stjórn svæða eftir að þrautþjálfuðu hermennirnir hefðu tryggt ráð yfir þeim. Bent er á að ekki hafa borist fréttir um neitt opinbert stórútkall varaliða í Rússlandi.

Annar heimildarmannanna sagði að Bandaríkjastjórn hefði einnig miðlað upplýsingum um að á vegum stjórnar Rússlands yrði lögð margföld áhersla á að stofna til upplýsingaóreiðu í Úkraínu til að grafa undan stjórnvöldum í Kíev.

Pútin neitaði opinberlega i liðinni viku að hann hefði uppi nokkur áform um innrás í Úkraínu en fagnaði að viðvörunarbjöllur glymdu. Það væri til marks um að aðgerðir sínar hefðu dregið að sér athygli Bandaríkjamanna og bandamanna þeirra. Sakaði hann stjórnendur þjóðanna um að taka ekki nógu mikið mark á „rauðum strikum“ Rússa í Úkraínu.

Hvorki Bandaríkjamenn né aðrir fullyrða að til hernaðarátaka komi eða að þeir viti hvort Pútin sé alvara í þeim efnum. Hann hafi líklega ekki enn gert upp hug sinn. Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði fyrr í nóvember: „Ég get ekkert sagt um áform Rússa. Við vitum ekki hver þau eru.“

Olekssi Reznikov, varnarmálaráðherra Úkraínu, var í Washington í liðinni viku og óskaði eftir stuðningi til að verja loft- og landhelgi lands síns. Um sam leyti fór utanríkisráðherra Úkraínu til Brussel. Yfirmaður leyniþjónustu hers Úkraínu sagði Military Times að hann teldi Rússa undirbúa innrás í Úkraínu í lok janúar eða byrjun febrúar 2022 með flugher, landgönguliði og vélaherfylkjum  sem send yrðu um Hvíta-Rússland.

Dmitríj Peskov, talsmaður Kremlverja, hafnaði þessum getgátum  sunnudaginn 21. nóvember og sagði: „Kynt er undir þessa móðursýki af sýndarmennsku.“ Bandaríkjamenn ættu að líta sér nær, þeir sendu herlið yfir hafið en Rússar héldu liði sínu innan eigin landamæra.

Spenna hefur verið milli Úkraínumanna og Rússa frá árinu 2014 þegar Rússar innlimuðu Krímskaga og studdu við bakið á aðskilnaðarsinnum í austurhluta Úkraínu. Síðan hafa um 14.000 manns fallið í valinn á þessu átakasvæði.

Jean-Yves Le Drian, utanríkisráðherra Frakklands, sagði sunnudaginn 21. nóvember að allt sem Rússar gerðu gegn landamæraöryggi Úkraínu hefði „gífurlega alvarlegar afleiðingar“.

 

 

 

 

 

 

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …