Home / Fréttir / Bandarísk fyrirtæki hasla sér völl á evrópskum orkumarkaði

Bandarísk fyrirtæki hasla sér völl á evrópskum orkumarkaði

2019-01-25t102716z_1_lynxnpef0o0jd_rtroptp_4_lng-usa-europe

Bandarísk orkufyrirtæki flytja um þessar mundir mikið magn af jarðgasi til Evrópu og stefna að því að ná fótfestu á markaði þar sem Rússar hafa ráðið miklu. Bandarísk stjórnvöld telja miklu skipta að setja Rússum skorður á evrópskum orkumarkaði.

Í frétt Reuters í fyrri viku segir að Evrópumenn séu nú helstu kaupendur á fljótandi jarðgasi (LNG) frá Bandaríkjunum. Evrópumarkaðurinn sé nú stærri fyrir bandarísk fyrirtæki en markaðirnir í Suður-Kóreu og Mexíkó. Það sé hagnaðarvon frekar en stjórnmál sem ráði þarna ferð. Donald Trump Bandaríkjaforseti er áhugamaður um að bandarísk orkufyrirtæki hasli sér völl í Evrópu til höfuðs Rússum.

Bandarísku fyrirtækin hafa beint viðskiptum sínum meira en áður til Evrópu eftir að mikið verðfall varð á Asíumarkaði þar sem eftirspurn reyndist minni en ætlað var. Til þessa hefur verið litið á evrópska markaðinn til þrautavara, verðlag þar hefur þó haldist hátt.

Frá október 2018 fram í janúar 2019 voru 48 farmar eða 3,23 milljón tonn af LNG flutt frá Bandaríkjunum til Evrópu miðað við 0,7 milljón tonn og 9 farma á sama tíma fyrir ári. Bandaríkin eru nú í öðru sæti á eftir Qatar, stærsta LNG-framleiðanda heims, sem útflutningsland til Evrópu.

Vegna eftirspurnar frá Kínverjum hefur LNG-markaðurinn vaxið mjög ört. Veðrátta í Kína hefur verið tiltölulega mild í vetur og þess vegna hafa kínverskar birgðir enst betur en margir ætluðu og verð lækkað á LNG í Asíu. Þá hefur það einnig áhrif á ákvarðanir bandarískra fyrirtækja að Kínverjar hafa sett 10% toll á bandarískt LNG vegna viðskiptastríðs þjóðanna.

Rússar senda jarðgas eftir leiðslum til Evrópu. Magnið sem þeir selja á þennan hátt jafngildir 145 milljón tonnum á ári. Þetta er fjórum sinnum meira magn en unnt er að selja á ári um bandarískar útflutningshafnir.

Rússar vilja leggja nýja gasleiðslu, Nord Stream 2, frá Rússlandi um Eystrasalt til Þýskalands. Bandaríkjastjórn og Trump sérstaklega vill stöðva framkvæmdir við þessa gasleiðslu.

Mikið jarðgas er unnið á Jamal-skaga í Rússlandi, fyrir norðan heimskautsbaug í Síberíu. Novatek fyrirtækið sem stendur að framkvæmdum og framleiðslu á þessum slóðum stefnir að því að verða fimmti stærsti LNG-framleiðandi heims á árinu 2019. Frá því í desember 2018 hafa Bandaríkjamenn flutt meira LNG til Evrópu en þangað hefur borist frá Jamal-skaga.

Það ræðst af markaðsaðstæðum hvort bandarísku fyrirtækin leggja meiri áherslu á markaðinn í Evrópu en Asíu. Sumarhiti og þörf fyrir loftkælingu kann að beina Bandaríkjamönnum aftur meira til Asíu eftir fáeina mánuði.

Eins og áður sagði flytur Qatar mest allra út af LNG. Ástralir eru í öðru sæti og Bandaríkjamenn því þriðja.

 

 

Skoða einnig

Rússar ráðast á barnaspítala í Kyiv

Rússar gerðu flugskeytaárás á helsta barnaspítalann í Kyiv mánudaginn 8. júlí. Að minnsta kosti 22 …