Home / Fréttir / Bandarísk B-52 sprengjuvél sýnir sig yfir Finnlandsflóa

Bandarísk B-52 sprengjuvél sýnir sig yfir Finnlandsflóa

Bandarísk B-52 sprengjuvél.

Bandarísk B-52 sprengjuvél flaug yfir Finnlandsflóa að kvöldi laugardags 11. mars. Vélin sneri af leið og hélt inn yfir Eystrasaltslöndin áður en hún kom að Gogland sem tilheyrir Rússlandi. Á finnsku heitir eyjan Suursaari og er hún um 40 km undan strönd Finnlands.

Mika Aaltola, forstjóri Finnsku alþjóðamálastofnunarinnar, sagði að í flugi vélarinnar yfir Finnlandsflóa fælust „skýr skilaboð“ til Rússa.

Forstjórinn sagði á Twitter að kvöldi laugardags að Finnlandsflói væri meðal hernaðarlega mikilvægustu sunda í Evrópu og Rússar hefðu aukið umsvif sín þar, til dæmis á Suursaari. „Á þennan hátt er de facto bandamönnum gætt og gagn-fælingarskilaboð send,“ sagði forstjórinn.

Þá sagði Aaltola: „Rússar hafa ögrað með auknum umsvifum frá Alaska til Arktik [norðurslóða]. Þetta er andsvar.“

Finnska ríkisútvarpið, YLE, skýrði frá því fimmtudaginn 9. mars að umsvif Rússa hefðu aukist á Gogland síðan 2014 þegar Rússar innlimuðu Krímskagann. Rússar hafa meðal annars sent fallhlífarhermenn og sérsveitir til æfinga á Gogland.

Öldum saman hefur verið deilt um yfirráð eyjarinnar. Hún var hluti sænska konungsríkisins til 1809 eins og Finnland en varð þá hluti Finnlands þar til í annarri heimsstyrjöldinni.

Þegar YLE  birti frétt sína um Gogland var Sauli Niinstö Finnlandsforseti í Washington og ræddi við Joe Biden forseta og háttsetta embættismenn, þeirra á meðal Jake Sullivan þjóðaröryggisráðgjafa og William Burns, forstjóra leyniþjónustunnar, CIA, um tafir á afgreiðslu NATO-aðildarumsóknar Finna.

Í maí 2022 flugu nokkrar vélar bandaríska flughersins yfir Finnland og sýndu þannig stuðning sinn í verk daginn eftir að Finnar kynntu áform sín um aðild að NATO.

Heimild: YLE

Skoða einnig

Spenna í Íran á eins ár minningardegi Amini sem lögregla myrti vegna skorts á höfuðslæðu

Íranir heima og erlendis minnast þess laugardaginn 16. september að eitt ár er liðið frá …