
Bodø-flugherstöðin er rétt fyrir norðan heimskautsbaug í Noregi. Þar er heimavöllur flota norskra F-16-orrustuþotna. Þær mynda nyrstu flugsveit viðvörunarkerfis NATO í norðri og eru sendar í veg fyrir rússneskar hervélar þegar þeim er flogið á norðurslóðum frá Kólaskaganum við norðaustur landamæri Noregs.
Hljóðfráar, bandarískar B-1-sprengjuþotur eru í nokkrar vikur á æfingaflugi frá Ørland-flugherstöðinni skammt fyrir norðan Þrándheim í Noregi og mánudaginn 8. mars lenti ein þeirra í fyrsta sinn á Bodø-flugvelli til að taka eldsneyti.
Bandarísku B-1-vélarnar taka þátt í æfingum með norskum og sænskum orrustuþotum.
Í janúar 2021 sagði norski varnarmálaráðherrann Frank Bakke-Jensen í umræðum í norska stórþinginu um tímabundna dvöl bandarísku vélanna í Noregi að haustið 2020 hefði ráðuneyti sitt fengið ósk frá bandaríska flughernum um aðstöðu fyrir B-1-þoturnar í febrúar og mars 2021. Ríkisstjórnin hefði rætt málið ítarlega og komist að þeirri niðurstöðu að með dvöl vélanna fengist mikilvægt tækifæri til samstarfs og æfinga og þess vegna samþykkt komu þeirra til Noregs.
Rússar létu í ljós vanþóknun sína vegna bandarísku vélanna með því að boða flugskeytaæfingar á vegum Norðurflota síns í síðari hluta febrúar á svæði frá strönd Noregs að Bjarnarey í Barentshafi.
Stýriflauga-beitiskipið Marshal Ustinov sigldi um þetta svæði en engri flaug var skotið á loft. Þá sigldi skipið inn á Varangerfjörð og hélt sig utan norskrar landhelgi nálægt Grense Jakobselv, það er landamæraánni milli Noregs og Rússlands. Hefur herskip úr rússneska Norðurflotanum ekki fyrr hagað siglingu sinni á þennan hátt.
Heimild: Barents Observer