Home / Fréttir / Bandaríkjaþing undirbýr fjárveitingu vegna umsvifa hers á norðurslóðum

Bandaríkjaþing undirbýr fjárveitingu vegna umsvifa hers á norðurslóðum

Bandarískir hermenn við þjálfun í Norður-Noregi.
Bandarískir hermenn við þjálfun í Norður-Noregi.

Áhugi bandarískra stjórnvalda á þróun mála á norðurslóðum hefur aukist undanfarin ár. Áform eru uppi um að smíða ísbrjóta í stað þeirra sem eru úr sér gengnir.

Nú hafa bandarískir þingmenn sent Jim Mattis varnarmálaráðherra tilmæli um að hann gefi þinginu skýrslu um hvernig háttað sé tækjakosti og þjálfun hermanna með hliðsjón af því að þeir kunni að verða sendir til þátttöku í hernaðaraðgerðum í kaldri veðráttu.

Þingmennirnir vilja að varnarmálanefndir beggja deilda þingsins fái skýrslu um þessi atriði:

  • Lýsingu á núverandi getu og þjálfun allra deilda heraflans til að eiga aðild að hernaðaraðgerðum Bandaríkjanna í köldu loftslagi.
  • Lýsingu á því hvers kynni að verða krafist af Bandaríkjaher vegna aðgerða í kaldri og mjög kaldri veðráttu á norðurslóðum, í Norðuraustur-Asíu og Norður- og Austur-Evrópu.
  • Lýsingu á núverandi ástandi alls heraflans til aðgerða í kaldri veðráttu, hvernig auka megi þjálfun heraflans á þessu sviði, hvaða tæki, mannvirki, mannafla þurfi eða annað til að búa um hnúta á viðunandi hátt á þessu sviði.
  • Greiningu á hugsanlegum tækifærum til að auka þjálfun landhers, flota og flughers auk landgönguliða til aðgerða í kaldri veðráttu og hve mikið fé og búnað þurfi til þess.
  • Greiningu á hugsanlegum samstarfsaðilum á þessu sviði, ríkjum, sveitarfélögum, ættbálkum og einkaaðilum í því skyni að nýta staðarþekkingu sem best, þar á meðal hefðbunda þekkingu frumbyggja.

Með þessu vilja þingmennirnir afla efnis í tillögur sem þeir hafa í hyggju að leggja fyrir Donald Trump forseta til samþykktar.

 

 

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …