Home / Fréttir / Bandaríkjaþing setur NATO-úrsögn forseta skorður

Bandaríkjaþing setur NATO-úrsögn forseta skorður

Marco Rubio og Tim Kaine.

Bandaríkjaþing samþykkti fimmtudaginn 14. desember ákvæði sem felur í sér að forseti Bandaríkjanna getur ekki einhliða ákveðið að Bandaríkin segi sig úr NATO. Forsetinn verði að hafa aukinn meirihluta þingmanna að baki sér. Með þessu vilja þingmenn slá varnagla, dytti Donald Trump í hug að reyna úrsögn úr NATO verði hann kjörinn forseti í nóvember 2024.

Tveir öldungadeildarþingmenn, demókratinn Tim Kaine frá Virginíu og repúblikaninn Marco Rubio frá Flórída, fluttu tillögu um að tveir þriðju öldungadeildarþingmanna yrðu að samþykkja tillögu forsetans um NATO-úrsögn eða þingið yrði að ákveða úrsögnina með lögum.

Kaine og Rubio hafa reynt að fá tillögu í þessa veru samþykkta síðan 2021. Það var fyrst núna sem fulltrúadeildin tók undir sjónarmið þeirra við afgreiðslu frumvarps um varnarmál. Repúblikanar hafa meirihluta í fulltrúadeildinni.

Litið er á samþykkt þingsins sem andsvar við niðrandi sjónarmiðum í garð NATO sem Donald Trump viðraði í forsetatíð sinni. Þá felist í henni árétting um varðstöðu vegna hernaðar Rússa í Úkraínu.

Stóryrði Trumps í garð NATO og bandamanna Bandaríkjanna þar vöktu oft athygli í forsetatíð hans. Eitt sinni lýsti hann aðildarríkjum NATO sem „skúrkum“. Þá dró hann í efa gildi ákvæðis í stofnsáttmála NATO um sameiginlegar varnir, það er ákvæðið í 5. gr. sáttamálans um að árás á eitt aðildarríki sé árás á þau öll.

Árið 2018 velti Trump því opinberlega fyrir sér hvers vegna Bandaríkjamenn ættu að leggja NATO-ríkinu Svartfjallalandi lið, yrði sent herlið í nafni NATO þangað til varnar „árasargjörnu“ bandalagsríki gæti það leitt til þriðju heimsstyrjaldarinnar.

John Bolton, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafi Trumps, hefur ásamt fleiri ráðgjöfum forsetans sagt að stundum hafi þeir óttast að forsetinn myndi segja Bandaríkin úr NATO. Trump og samherjar hans stæra sig hins vegar af því að stóryrði forsetans hafi leitt til hærri útgjalda ríkja bandalagsins til hermála og þar með eflt það.

 

 

 

 

Skoða einnig

Málstofan „Öryggi og varnir á norðurslóðum“ komin á Netið

Ánægjulegt að deila hér samantekt á nýlegu málþingi Varðbergs „Öryggi og varnir á norðurslóðum“ sem …