Home / Fréttir / Bandaríkjastjórn vill ganga í augun á Grænlendingum

Bandaríkjastjórn vill ganga í augun á Grænlendingum

Flugvöllurinn í Kangerlussuaq (Syðri Straumfyrði).
Flugvöllurinn í Kangerlussuaq (Syðri Straumfyrði).

Í þessari viku var fjölmenn bandarísk sendinefnd í Nuuk, höfuðborg Grænlands. Meðal nefndarmanna var háttsettur embættismaður sem fylgir eftir stefnumörkun Bandaríkjastjórnar. Þá voru starfsmenn þjóðaröryggisráðs Bandaríkjanna einnig í sendinefndinni.

Bandaríkjamennirnir voru í grænlensku höfuðborginni nákvæmlega á sama tíma og Jeppe Kofod, utanríkisráðherra Danmerkur, var þar til að ræða við Ane Lone Bagger, utanríkisráðherra heimastjórnar Grænlands.

Grænlenska ríkisútvarpið, KNR, lagði spurningar fyrir Thomas Ulrich Brechbul, æðsta bandaríska embættismanninn, og Ane Lone Begger án þess að fá svör.

Í fyrri viku heimsótti Karl Schultz, yfirmaður bandarísku strandgæslunnar, Grænland. Hann heimsótti dönsku herstjórnina í Nuuk og Kangerlussuaq (Syðri Straumfirði).

KNR ræddi við Jon Rahbek-Clemmensen, lektor við danska varnarmálaháskólann (Forsvarsakademiet). Hann segir að þessi áhugi bandarískra stjórnvalda á Grænlandi endurspegli áhuga þeirra á að fá meiri aðstöðu fyrir herafla sinn í landinu.

„Öllum er orðið ljóst að Bandaríkjastjórn vill auka hernaðarlega viðveru sína á Grænlandi. Vilji Bandaríkjamenn það er mikilvægt að sýna Grænlendingum að þetta komi sér einnig vel fyrir þá,“ segir hann.

Bandaríkjamenn telji mikilvægt að skapa góð tengsl og heyra hvað grænlenskir stjórnmálamenn hafi áhuga á að fá í staðinn fyrir aukna hervæðingu. Jon Rahbek-Clemmensen telur að fyrir þeim vaki ekki að hrinda hugmynd Donalds Trumps Bandaríkjaforseta um að kaupa Grænland í framkvæmd:

„ Hugmyndin um að kaupa Grænland er eitthvað sem Trump og þeim sem honum standa næstir datt í hug. Ég held að innan kerfisins leggi menn ekki mikla áherslu á þetta. Og nú erum við á því stigi þegar kerfið sem framkvæmir utanríkisstefnuna reynir að snúa aftur til þeirrar stefnu sem fylgt var fyrir kauptilboð Trumps. Í stefnunni fólst að ganga í augun á Grænlendingum.“

Jon Rahbek-Clemmensen segir að heimsókn danska utanríkisráðherrans til Grænlands sýni að mikilvægi landsins hafi aukist fyrir Dani – á sama hátt og Grænland sé orðið mikilvægara fyrir Bandaríkjamenn. „Þegar eitthvað verður mikilvægt fyrir Bandaríkjamenn verður það einnig mikilvægt fyrir Dani,“ segir

Jon Rahbek Clemmensen.

Hann segir að dönsku stjórninni þyki óþægilegt ef fulltrúar Grænlendinga og Bandaríkjamanna ræði saman án Dana:

„Það vekur taugatitring ef Bandaríkjamenn hefja beint samtal við Grænlendingana og öfugt í stað þess að fara eftir hefðbundnum leiðum innan [danska] ríkjasambandsins þar sem Danir gegna mikilvægu hlutverki við borðið,“ segir Jon Rahbek-Clemmensen.

Hráefna-fundir

Bandaríska sendinefndin átti meðal annars fund með Erik Jensen, ráðherra hráefna og vinnumarkaðar. Á fundinum kynnti ráðherrann hráefnastöðuna á Grænlandi, gerði grein fyrir steinefnum í landinu og nýtingu þeirra sem eru mikilvægust fyrir Bandaríkjamenn, segir í fréttatilkynningu heimastjórnarinnar.

Þá var rætt um hugsanlega nýtingu hráefna á Grænlandi og leiðir til samstarfs milli Grænlendinga og Bandaríkjamanna á þessu sviði.

„Ég tel mikils virði að stuðlað sé að raunhæfu samstarfi og opnum skoðanaskiptum við Bandaríkjamenn og í mínum huga ber að þróa samskiptin með ákveðnu frumkvæði á sviði hráefnanýtingar sem kann að gagnast bæði Grænlendingum og Bandaríkjamönnum,“ segir Erik Jensen.

Heimild: KNR.

 

 

 

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …