Home / Fréttir / Bandaríkjastjórn vill Finna og Svía í NATO á Madridfundinum

Bandaríkjastjórn vill Finna og Svía í NATO á Madridfundinum

Bandaríska varnarmálaráðuneytið mælir með aðild Finna og Svía að NATO, þjóðirnar muni efla hernaðarmátt bandalagsins og dreifa kostnaði við að styrkja varnir gegn sífellt árásargjarnari Rússum. Þá telur bandaríska utanríkisráðuneytið „víst“ að jákvæð lausn finnist þrátt fyrir óvild Tyrklandsforseta gegn aðild landanna.

Celeste Wallander aðstoðarvarnarmálaráðherra sat fyrir svörum um aðild þjóðanna þjóðanna í utanríkismálanefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings miðvikudaginn 22. júní.

Hún sagði að herir þjóðanna hefðu undanfarið samhæft búnað sinn og aðgerðir með NATO og þær væru mikilvægir hernaðarlegir samstarfsaðilar auk þess að eiga sameiginleg gildi með Bandaríkjamönnum. Það væri því eindregin niðurstaða varnarmálaráðuneytisins að það yrði mikill fengur fyrir NATO og gildi þess að fá þjóðirnar í sínar raðir.

Öldungadeildarþingmennirnir í nefndinni voru almennt hlynntir að NATO-aðild Finna og Svía yrði samþykkt á ríkisoddvitafundi NATO í Madrid miðvikudaginn 29. júní.

Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, hefur sett fótinn fyrir NATO-aðild þjóðanna með vísan til þess að þær hafi ekki tekið nógu skýra afstöðu gegn Verkamannaflokki Kúrda (PKK) sem Erdogan segir hryðjuverkahóp.

Óvild Tyrklandsforseta beinist einkum að Svíum en ljóst er að finnsk stjórnvöld vilja ekki segja skilið við sænsk á þessari vegferð. Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, hefur beitt sér af þunga í málinu undanfarna daga en án árangurs til þessa.

Laugardaginn 25. júní sagði Erdogan eftir símtal við Magdalenu Andersson að Svíar yrðu að taka skref varðandi grundvallarmál eins og baráttuna gegn hryðjuverkum. Í tilkynningu frá forsetaembættinu sagði að Tyrkir vildu sjá „bindandi skuldbindingar varðandi þessi mál ásamt fastmótaðri og skýrri aðgerð“.

Fulltrúar Finna og Svía ræða við Tyrki mánudaginn 27. júní í Brussel. Frá Ankara berast þau boð frá tyrkneskum stjórnvöldum að ástæðulaust sé að binda of miklar vonir við að ágreiningurinn hverfi fyrir ríkisoddvitafundinn í Madrid.

Celeste Wallander sagði við öldungadeildarþingmennina í Washington 22. júní að í Moskvu fögnuðu menn ekki NATO aðild Finna og Svía. Breyta yrði áætlunum rússneska hersins vegna þess til dæmis að nú tvöfaldaðist lengd sameiginlegra landamæra Rússa með NATO-þjóðum.

Karen Donfried, aðstoðarutanríkisráðherra evrópskra og evró-asískra málefna, sagði við öldungadeildarþingmennina að Bandaríkjastjórn teldi „víst“ að deilan vegna andstöðu Tyrkja yrði „leyst á jákvæðan hátt“. Sagði hún að gerðist það í tengslum við Madrid-fundinn gæti öldungadeildin „tafarlaust“ gengið til atkvæðagreiðslu um aðild þjóðanna að NATO. Deildin á síðasta orðið um afstöðu Bandaríkjamanna.

Þess er krafist að aðildarlönd NATO að þau verji að minnsta kosti 2% af vergri landsframleiðslu sinni til varnarmála árið 2024. Finnar verja nú þegar 2,16% af VLF til varnarmála. Svíar stefna að 2% eins fljótt og verða má og ekki seinna en árið 2028. Bandaríkjamenn verja nú rúmlega 3% af VLF til varnarmála að sögn varnarmálaráðuneytisins.

 

 

.

 

 

Skoða einnig

Sænskir jafnaðarmenn viðurkenna mistök í útlendingamálum

Sænskir jafnaðarmenn hafa látið vinna skýrslu um útlendingamál innan flokks síns þar sem komist er …