Home / Fréttir / Bandaríkjastjórn stöðvar F-35 viðskipti við Tyrki

Bandaríkjastjórn stöðvar F-35 viðskipti við Tyrki

S-400 loftvarnakerfi Rússa er eitt hið öflugasta í heimi.
S-400 loftvarnakerfi Rússa er eitt hið öflugasta í heimi.

Bandaríkjastjórn hefur stöðvað afgreiðslu á hlutum sem tengjast sölu á háþróuðu orrustuþotunni F-35 til Tyrklands. Bandaríska varnarmálaráðuneytið skýrði frá þessu mánudaginn 1. apríl. Ástæðuna má rekja til andstöðu Bandaríkjamanna við fyrirhuguð kaup Tyrkja á S-400 loftvarnabúnaði frá Rússum.

Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti hefur lýst yfir að það hafi engin áhrif á kaupin á S-400 kerfinu af Rússum að bandamenn Tyrkja í NATO telji viðskiptin kunna að ógna öryggi torséðu F-35 þotunnar. Tyrkir segjast eiga von á S-400 flaugunum frá Rússum í júlí.

Fjöldi NATO-ríkja hefur ákveðið að kaupa F-35 þotur, þ. á m. Danir og Norðmenn.

Bandaríkjastjórn hefur meðal annars boðið Tyrkjum að kaupa bandaríska Patriot loftvarnakerfið á afsláttarverði til að letja þá til viðskiptanna við Rússa. Tyrkir hafa sýnt Patriot-kerfinu áhuga en ekki á kostnað umsaminna viðskipta við Rússa.

Fréttaskýrendur segja að það sé mjög óvenjulegt að bandalagsríki NATO kaupi rússneskan herbúnað sem falli ekki að kerfum og kröfum NATO og gæti auðveldað Rússum að afla sér mikilsverðra upplýsinga um hlekki í vörnum NATO. Að því er F-35 þotuna varðar óttast Bandaríkjamenn og aðrar NATO-þjóðir að gera megi ratsjá S-400 kerfisins kleift að greina og fylgjast með torséðu þotunni en hver vél af F-35 gerð er metin á 90 milljónir dollara.

Tyrkir hafa lýst áhuga á að kaupa 100 F-35 vélar og var áætlun um að afhenda þeim tvær fyrstu vélarnar frá Lockheed Martin-smiðjunum í nóvember 2019.

Það er ekki aðeins innan bandaríska varnarmálaráðuneytisins og á vettvangi NATO sem menn hafa áhyggjur af kaupum Tyrkja á S-400 loftvarnakerfinu af Rússum. Í fyrri viku fluttu þingmenn beggja flokka í öldungadeild Bandaríkjaþings tillögu um að stöðva sölu á F-35 til Tyrkja nema staðfest sé að þeir ætli ekki að kaupa S-400.

 

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …