Bandaríkjastjórn ætlar að hætta að veita fé til stofnunar Sameinuðu þjóðanna (SÞ) sem stofnuð var 1949 til aðstoða Palestínumenn sem flúðu þegar Ísraelsríki var stofnað. Nú njóta fimm milljónir manna aðstoðar stofnunarinnar en stjórn Donalds Trumps Bandaríkjaforseta vill að SÞ endurskoði hverja telja eigi palestínska flóttamenn.
Í yfirlýsingu bandaríska utanríkisráðuneytisins föstudaginn 31. ágúst var sagt að stofnuninni United Nations Relief and Works Agency (UNRWA) væri ekki viðbjargandi og hún fjölgaði „endalaust“ þeim sem njóta aðstoðar undir merkjum hennar. Starfsemin væri einfaldlega ekki þess virði að styðja hana og innan stofnunarinnar hefði ríkt krísuástand árum saman.
Bandaríkjamenn leggja mest allra þjóða til UNRWA, um 30% af fjárhagsáætlun stofnunarinnar. Í fyrra nam bandaríska framlagið 355 milljónum dollara, í ár skar Trump-stjórnin það niður í 60 milljónir dollara.
Chris Gunnes, upplýsingafulltrúi UNRWA, lýsti „undrun“ yfir ákvörðun Bandaríkjamanna og hafnaði því að stofnuninni væri ekki viðbjargandi.
Ísraelsk stjórnvöld styðja afstöðu Bandaríkjastjórnar. Afstaða þeirra er að það sé liður í óleysanlegri deilu milli Ísraela og nágranna þeirra að stöðugt sé litið á Palestínumenn sem flóttamenn.
Nú blasir við 200 milljón dollara gat í fjárhagsáætlun UNRWA og er óvíst hvort tekst að brúa það þótt Þjóðverjar og Persaflóaríkin hafi lofað auknum fjárveitingum.
Á vegum UNRWA er veitt heilbrigðisþjónusta, menntun og félagsleg aðstoð til Palestínumanna í Sýrlandi, Líbanon, Jórdaníu á Vesturbakkanum og Gaza-ströndinni. Gagnrýnendur UNRWA telja stofnunina viðhalda flóttamannavanda sem hefði mátt leysa fyrir löngu. Í skjóli hennar þrífist starfsemi sem óeðlilegt sé að styrkja á þennan hátt í nafni SÞ auk þess sem aukið sé á pólitíska spennu fyrir botni Miðjarðarhafs með þeirri skipan sem felst í starfi stofnunarinnar.
Bandaríkjastjórn vill að UNRWA breyti skilgreiningu sinni á því hver teljist palestínskur flóttamaður. Í þeim hópi eru meðal annars afkomendur þeirra sem fluttu búferlum við stofnun Ísraelsríkis árið 1948. Þessu andamæla Bandaríkjamenn.
Talsmaður Mahmouds Abbas, forseta Palestínu, sagði að þessi ákvörðun Bandaríkjastjórnar væri enn ein „svívirðileg árás“ hennar á Palestínumenn og virðingarleysi fyrir ályktunum SÞ.