Home / Fréttir / Bandaríkjastjórn segir sig í UNESCO – Ísraelar sigla í kjölfarið

Bandaríkjastjórn segir sig í UNESCO – Ísraelar sigla í kjölfarið

das-hauptquartier-der-unesco

Ríkisstjórn Bandaríkjanna hefur ákveðið að segja Bandaríkin úr UNESCO, menningarstofnun Sameinuðu þjóðanna (SÞ) með höfuðstöðvar í París. Bandaríska utanríkisráðuneytið tilkynnti þetta fimmtudaginn 12. október. Í yfirlýsingu ráðuneytisins sagði að það hefði ekki verið létt verk að komast að þessari niðurstöðu.  Hún hefði þó verið óhjákvæmileg vegna þess að ekki reyndist unnt að gera umbætur á starfi UNESCO auk þess sem innan stofnunarinnar ríkti óvild í garð Ísraela. Bandaríkin stæðu utan stofnunarinnar en létu sig samt mál hennar varða. Úrsögnin tekur gildi 31. desember 2018.

Ríkisstjórn Ísraels hefur einnig ákveðið að segja skilið við UNESCO. Benjamin Netanayhu tilkynnti þetta fimmtudaginn 12. október í Tel Aviv. „UNESCO hefur breyst í átakavöll þar sem vegið er opinberlega að Ísrael og stofnunin gengur gegn raunverulegu hlutverki sínu og markmiðum,“ sagði Danny Danon, sendiherra Ísraels hjá SÞ í New York fimmtudaginn 12. október. Brotthvarf Bandaríkjanna marki „þáttaskil“.

Ríkisstjórnir margra landa gagnrýna þessa ákvörðun. Monika Grütters (CDU), menningarmálaráðherra Þýskalands, sagði: „Að Bandaríkin skuli einmitt núna ákveða að hverfa úr UNESCO gefur algjörlega röng skilaboð.“ Þegar mikið lægi við vegna sundurlyndis í heimsmálum skipti meira máli en ella að leggja rækt við alþjóðlega menningarsamvinnu á vettvangi stofnana SÞ.

Sigmar Gabriel (SPD), utanríkisráðherra Þýskalands, lýsti einnig andstöðu við ákvörðun Bandaríkjamanna. „Við stöndum með UNESCO. Um það ríkir enginn vafi að við viljum stofnuninni vel og styðjum hana með aðild okkar.“

Brotthvarf Bandaríkjanna úr UNESCO fellur að stefnu ríkisstjórnar Donalds Trumps forseta um að draga úr útgjöldum til SÞ. Irina Bokova, forstjóri UNESCO, harmaði ákvörðunina sem tekin var í Washington. Rex Tillerson utanríkisráðherra tilkynnti henni hana.

Deilurnar fyrir botni Miðjarðarhafs hafa í  mörg ár varpað skugga á störf UNESCO. Eftir að Palestína fékk aðild að stofnuninni hættu Bandaríkjamenn árið 2011 að greiða aðildargjald sitt til UNESCO – þeir lögðu mest fé af mörkum til starfseminnar. Á liðnu sumri var samþykkt á fundi heimsminjaráðstefnu UNESCO að setja gamla borgarhluta Hebron á heimsminjaskrá UNESCO sem hluta af menningararfleifð Palestínumanna. Ísraelar fordæmdu samþykktina.

UNESCO er einkum þekkt vegna heimsminjaskrárinnar. Starfsemi stofnunarinnar er þó mun víðtækari en alls starfa 2.100 manns hjá henni.

Bandaríkjamenn sögðu sig úr UNESCO árið 1984. Þá gerðu þeir það til að mótmæla fjandskap í garð Vesturlanda innan stofnunarinnar og lélegum rekstri hennar. Þeir gerðust aðilar að nýju árið 2003.

Framkvæmdaráð UNESCO greiðir í þessari viku atkvæði í París um eftirmann Bokovu sem forstjóra stofnunarinnar. Hart er tekist á um embættið. Miðvikudaginn 11. október féllu atkvæði þannig að Hamad bin Abdulasis al Kawari frá Qatar og fyrrverandi ráðherra í Frakklandi, Audrey Azoulay, fengu hvort um sig 18 af 58 atkvæðum í ráðinu – til að ná kjöri þarf hreinan meirihluta, 30 atkvæði. Í þriðja sæti var Muschira Chattab frá Egyptalandi með 13 atkvæði. Færri atkvæði fengu frambjóðendur Kína og Líbanons.

Heimild: FAZ

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …