Home / Fréttir / Bandaríkjastjórn sækir að Kínverjum aðstoði þeir Rússa

Bandaríkjastjórn sækir að Kínverjum aðstoði þeir Rússa

Súluritið synir þróun viðskipta Rússa og Kínverja. Heimild: BBC

Forstjóri. bandarísku leyniþjónustunnar CIA sagði sunnudaginn 26. febrúar við bandarísku CBS-sjónvarpsstöðina að hann hefði ekki sannanir fyrir því að Kínverjar ætluðu að láta Rússum í té banvæn vopn en Bandaríkjastjórn væri „sannfærð“ um að þeir mundu gera það.

Sjaldgæft er að forstjórinn, William Burns, komi til viðtals í sjónvarpi. Að þessu sinni áréttaði hann rækilega að hann hefði hvorki staðfesta sönnun fyrir að ákvörðun um vopnasendingu til Rússa hefði verið tekin í Peking né að vopn hefðu verið afhent Rússum.

Í um það bil viku hefur Bandaríkjastjórn lagt mikla áherslu á það í yfirlýsingum á alþjóðavettvangi að vara Kínverja við afleiðingum allra ákvarðana sem þeir kynnu að taka um að senda banvæn hergögn til Rússa. Sérfræðingar telja að gerist það verði eðli átakanna í Úkraínu annað og þau taki nýja og alvarlegri stefnu. Talsmenn Kínastjórnar hafa harðlega hafnað öllu sem Bandaríkjastjórn hefur sagt um launráð í Peking og ásakanirnar séu úr lausu lofti gripnar.

Í The Wall Street Journal og bandarísku NBC-sjónvarpsstöðinni hafa birst fréttir reistar á upplýsingum frá ónafngreindum heimildarmönnum sem segja að Kínverjar íhugi einkum að láta Rússum í té dróna og skotfæri. Þá segist þýska vikuritið Der Spiegel hafa heimildir fyrir því að kínverskt fyrirtæki hafi hafið framleiðslu á sjálfseyðandi drónum til árása á skotmörk rússneska hersins í Úkraínu.

Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, ræddi við Wang Yi, utanríkismálastjóra kínverska kommúnistaflokksins (og þar með valdameiri mann en utanríkisráðherra Kína) laugardaginn 19. febrúar á hliðarfundi við öryggisráðstefnuna í München. Þar lýsti Blinken áhyggjum tækju Kínverjar vopna-skrefið til aðstoðar Rússum.

Wang Yi hélt frá München til Moskvu þar sem hann hitti Vladimir Pútin Rússlandsforseta og aðra forystumenn í Kreml um miðja síðustu viku til að staðfesta enn á ný sérstakt samband Kínverja við Rússa. Þá koma fram í fréttum frá Washington að Kínverjar veittu Rússum nú þegar aðstoð án þess að um banvæn vopn væri að ræða.

Til að taka enn frekar af skarið þræddi Jake Sullivan, þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjaforseta, viðræðuþætti í sjónvarpsstöðvum sunnudaginn 26. febrúar með þann boðskap að Bandaríkin væru „á verði“ í þessu efni. Hann ítrekaði að ráðamenn í Peking skyldu átta sig á að það hefði „afleiðingar“ legðu þeir Rússum til vopn. „Við munum halda áfram að senda ákveðin skilaboð þess efnis að sending á hernaðaraðstoð til Rússa á þessari stundu […] yrði til marks um alvarleg mistök og Kínverjar ættu ekki að taka þátt í því,“ sagði Sullivan á CNN.

Hann telur að Úkraínustríðið skapi Kínverjum „alvarleg vandræði“ en ákveði stjórn þeirra að senda vopn til Moskvu verði það henni „dýrkeypt“. Í Washington vilja menn ekki svara hver „kostnaður“ Kínverja yrði en talið er líklegt að gripið yrði til ýmissa ráða til að skapa efnahagsvanda í Kína.

Sjálfur forsetinn, Joe Biden, lét í það skína í viðtali við ABC-sjónvarpsstöðina föstudaginn 24. febrúar að hann hefði þegar rætt málið við Xi Jinping Kínaforseta. Bent á afleiðingar slíks stuðnings og að stríðið í Úkraínu hefði leitt til þess að fjölmörg fyrirtæki hefðu hætt starfsemi í Rússlandi. „Þetta er ekki hótun heldur staðreynd,“ hefði hann sagt við Kínaforseta.

Á fjarfundi sem leiðtogar G7-ríkjanna héldu föstudaginn 24. febrúar hótuðu þeir  einnig „dýrkeyptum“ afleiðingum fyrir þau ríki sem hæfu stuðning við Rússa í andstöðu við vestrænar refsiaðgerðir.

Föstudaginn 24. febrúar kynnti stjórn Kína áætlun í 12 liðum sem ætlað er að stuðla að friði milli stríðsaðila í Úkraínu, hvatt er til viðræðna, virðingar fyrir landsyfirráðum og andstöðu við hvers kyns notkun kjarnavopna.

Í Washington telja menn að þetta útspil Kína sé til marks um að nú eigi að leika „á tveimur borðum“ sem verði sífellt erfiðara ­­– ekki síst þegar litið sé til stefnu Kínverja gagnvart Tævan sem Kínastjórn vill einhliða sölsa undir sig og segir innanríkismál sitt.

Heimild: Le Figaro

 

 

Skoða einnig

Sænska þingið samþykkir tvíhliða samstarfssamning við Bandaríkin um varnarmál

Sænska þingið samþykkti tvíhliða samstarfssamning við Bandaríkin um varnarmál þriðjudaginn 18. júní. Víðtækur stuðningur var …