Home / Fréttir / Bandaríkjastjórn rýmkar reglur í dróna-stríðinu við talíbana

Bandaríkjastjórn rýmkar reglur í dróna-stríðinu við talíbana

Reaper-dróni sem  notaður er til njósna.
Reaper-dróni sem notaður er til njósna.

Bandaríkjastjórn gekk lengra en áður í drónaárásinni sem varð talibanaforingjanum Mullah Akhtar Muhammas Mansour að aldurtila í Pakistan laugardaginn 21. maí en hún hefur áður gert segir Kathy Gilsinan, aðstoðarritstjóri bandaríska tímaritsins The Atlantic mánudaginn 23. maí sama dag og Barack Obama Bandaríkjaforseti staðfesti að foringi talíbanan hefði verið drepinn. Opinberlega hafði Mansour ekki borið forningjatitilinn nema í tæpt ár.

Gilsinan segir að árásin á Mansour hafi sýnt að Bandaríkjastjórn virði ekki lengur ýmsar takmarkanir sem til þessa hafi gilt um beitingu dróna gegn talíbönum og dróna-stríð hennar í Pakistan. Þetta sjáist af því hvar og hvenær árásin var gerð og af hverjum auk þess bandarísk yfirvöld hafi viðurkennt aðild sína að henni.

Sagt er að Mansour hafi verið drepinn á ferðalagi um Baluchistan-hérað í Pakistan. Þar hafa flestir forystumanna talíbana haldið síðan þeir voru reknir út úr Afganistan eftir innrás Bandaríkjamanna þar árið 2001. Þótt vitað væri um forystumennina þarna hafa Bandaríkjamenn ekki fyrr en nú laugardaginn 21. maí ráðist á þá með drónum á þessum slóðum.

Bandaríkjamenn hafa til þessa beitt drónum sínum norðar í Pakistan. Raunar hefur dregið úr ferðum dróna á þeim slóðum undanfarin ár í samræmi við stefnu Obama-stjórnarinnar sem miðar að friðarviðræðum milli talíbana og stjórnvalda í Kabúl, höfuðborg Afganistans. John Kerry utanríkisráðherra og Barack Obama forseti segja nú að það kunni að auðvelda þessar viðræður að Mansour hafi verið rutt úr vegi.

Þá vekur athygli að það var ekki bandaríska leyniþjónustan CIA sem stóð að árásinni á Mansour heldur bandaríski herinn. CIA hefur aldrei viðurkennt að Bandaríkjamenn beiti drónum í Afganistan þótt CIA-menn hafi verið þar að verki til þessa. Að þessu sinni skýrði talsmaður bandaríska varnarmálaráðuneytisins frá árásinni og árangrinum sem náðist með henni.

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …