Home / Fréttir / Bandaríkjastjórn greiðir úr fréttaflækju vegna flugmóðurskips

Bandaríkjastjórn greiðir úr fréttaflækju vegna flugmóðurskips

Flugmóðurskipið Carl Wilson við Indónesíu.
Flugmóðurskipið Carl Wilson við Indónesíu.

Stjórnvöld í Washington höfnuðu því miðvikudaginn 19. apríl að þau hefðu gefið villandi upplýsingar um ferðir bandarískrar flotadeildar undir forystu flugmóðurskips á leið að Kóreuskaga. Þau sögðust aldrei hafa nefnt neina dagsetningu vegna komu skipanna að skaganum, þau væru nú á leiðinni þangað.

Snemma í fyrri viku lét Donald Trump Bandaríkjaforseti eins og hann hefði sent „herflota“ á vettvang Norður-Kóreumönnum til viðvörunar. Þegar þessi orð féllu var flugmóðurskipið Carl Vinson með fylgdarskipum sínum langt frá Kóreuskaga og sigldi í áttina frá honum.

Yfirstjórn Kyrrahafsflota Bandaríkjanna sagði þriðjudaginn 18. apríl að ákveðið hefði verið að flotadeildin tæki þátt í æfingu með Ástralíumönnum, æfingartíminn hefði verið styttur og skipin sigldu nú til Vestur-Kyrrahafs.

„Forsetinn sagði að við hefðum sent herflota í átt að [Kóreu-]skaganum. Það er rétt. Það gerðist. Réttara sagt það er að gerast,“ sagði Sean Spicer, talsmaður forsetans. Hann sagði að frekari tímasetningar yrðu tilkynntar af varnarmálaráðuneytinu.

Bandarísk hernaðaryfirvöld sögðu í fyrstu tilkynningu sinni mánudaginn 10. apríl að Harry Harris aðmíráll, yfirmaður Kyrrahafsherstjórnarinnar, hefði gefið stjórnendum flugmóðurskipsins Vinsons og sóknarflotans með honum fyrirmæli um að „halda í norður og tilkynna sig eftir komu inn á Vestur-Kyrrahaf“.

Skipin sigldu hins vegar í aðra átt. Bandaríski flotinn birti meira að segja mynd laugardaginn 15. apríl sem sýndi Carl Vinson á siglingu um Sunda-sund í Indónesíu á leið til æfinganna með Áströlum.

Þriðjudaginn 11. apríl sögðu Reuters-fréttastofan og fleiri fjölmiðlar að þessi krókur skipanna mundi taka rúma viku. Yfirstjórn flotans vísar til öryggisreglna og neitar að gefa frekari upplýsingar um ferðir skipanna.

Jim Mattis varnarmálaráðherra reyndi að greiða úr þessari flækju miðvikudaginn 19. apríl þegar hann sagði fréttamönnum sem voru á ferð með honum um Mið-Austurlönd að það hefði verið í þágu gagnsæis sem skýrt hefði verið frá breytingum á áætlun Vinson-flotadeildarinnar.

„Við gerum einmitt það sem við sögðumst ætla að gera. Skipin eru á þessari leið,“ sagði hann.

Yfirmaður flotadeildarinnar, Jim Kirby undir-aðmíráll, sagði á Facebook í vikunni að úthald skipanna hefði verið lengt um 30 daga til að þau gætu haft „stöðuga viðveru á hafsvæðinu undan Kóreu-skaga“.

 

 

 

 

Skoða einnig

Bardagareyndur hershöfðingi settur yfir rússnesku herstjórnina í norðvestri

Þriggja stjörnu hershöfðinginn Aleksandr Lapin var 15. maí skipaður yfirmaður Leningrad-herstjórnarsvæðisins í Rússlandi. Svæðið er …