Home / Fréttir / Bandaríkjastjórn gefur Rússum 60 daga frest vegna INF-samningsins

Bandaríkjastjórn gefur Rússum 60 daga frest vegna INF-samningsins

Rússneskri meðaldrægri stýriflaug skotið á loft.
Rússneskri meðaldrægri stýriflaug skotið á loft.

Bandaríkjastjórn gaf Rússum 60 daga 4. desember 2018 til að fara að samningnum um meðaldrægar kjarnaflaugar (INF-samningnunum). Mike Pompeo, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði þegar hann tilgreindi frestinn að loknum utanríkisráðherrafundi NATO-ríkjanna, sð færu Rússar ekki að samningnum kynnu Bandaríkjamenn að framleiða, reyna og setja upp ný flugskeyti.

Á fundi með blaðamönnum í Brussel gerði Pompeo grein fyrir því að um nokkurt árabil hefðu Bandaríkjamenn talið að Rússar virtu samninginn ekki með því að þróa og setja upp nýjar stýriflaugar á skotpöllum á landi. Þær væru liður í víðtækari lögbrotum rússneskra stjórnvalda í þessu efni.

Ætli Bandaríkjastjórn að segja sig frá samningnum þarf hún að tilkynna það sex mánuðum áður en til riftunar kemur. Fari fram sem horfir tekur sá tími að líða í byrjun febrúar, það er 60 dögum eftir 4. desember. Pompeo sagði að á 60 dögunum myndi Bandaríkjaher hvorki reyna, framleiða né setja upp nokkur eldflaugakerfi. Að þeim tíma liðnum kæmi i ljós hvað hann gerði.

Á NATO-ráðherrafundinum 4. desember fullyrtu Bandaríkjamenn að Rússar framleiddu nú þegar og hefðu sett upp stýriflaugar á landi sem skjóta mætti  500 til 5000 km vegalengd en þær eru bannaðar í INF-samningnum. Þær mætti setja upp víða í Evrópu og við landamæri Kína með skömmum fyrirvara.

Í Moskvu hafna menn því að nýja stýriflaugin þeirra brjóti í bága við INF-samninginn. Að Rússar tali nú á þennan veg stangast á við áralanga afneitun þeirra á tilvist flauganna. Þeir fara þó enn óljósum orðum um hvernig megi beita þeim. Á hinn bóginn saka Rússar Bandaríkjamenn um að brjóta gegn INF með því að hafa sett upp Aegis-gagnflaugakerfi í Rúmeníu og Póllandi. Þeir segja að kerfinu megi auðveldlega breyta úr varnar- í árásarkerfi. Bandaríkjamenn segja þetta út í hött.

Donald Trump Bandaríkjaforseti lýsti áformum sínum um að rifta INF-samningnum 20. október 2018. Formlega var það þó ekki gert. Eftir NATO-ráðherrafundinn 4. desember var síðan 60 daga fresturinn gefinn Rússum.

Í The Guardian segir að Angela Merkel Þýskalandskanslari hafi sannfært Donald Trump á G20-fundinum í Buenos Aires á dögunum um að fresta formlegri uppsögn INF-samningsins fram á næsta ár. Evrópskir leiðtogar reyni eftir megni að koma í veg fyrir riftun samningsins.

 

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …