
Bandaríkjastjórn hefur ákveðið að auka flug dróna – ómannaðra flugtækja – um 50% um heim allan. Jeff Davis, talsmaður varnarmálaráðuneytisins í Washington, sagði mánudaginn 17. ágúst að ætlunin væri að fjölga daglegum flugferðum dróna úr 60 í 90.
Verkefni drónanna er að safna upplýsingum á spennusvæðum í heiminum og þá má einnig nota til banvænna árása og er það umdeildasti þátturinn í beitingu þeirra. Í forsetatíð Baracks Obama hefur beiting dróna til morðárása aukist til mikilla muna.
Davis sagði að fjölgun á flugi dróna krefðist einnig fjölgunar á sérþjálfuðum greinendum sem ynnu að því að breyta upplýsingunum sem drónarnir afla í „framkvæmanlegar upplýsingar“.
Hann sagði að flugherinn einn mundi ekki lengur sitja að notkun dróna. Landherinn fengi í auknum mæli afnot af þeim, yfirstjórn sérsveita og verktakar á vegum ríkisins.
Flugherinn mun áfram standa að 60 flugum á dag en á vegum landhersins verða 10 til 20 flug daglega. Á vegum yfirstjórnar sérsveitanna verða dróna-flugin um 10 á dag. Þá verða verktakar fengnir til að stjórna allt að 10 flugum á dag, þeir drónar verða án vopna.
Bandaríkjastjórn hefur notað dróna í átökum í Pakistan, Afganistan, Írak, Jemen, Sómalíu og annars staðar til að granda forystumönnum hryðjuverkamanna, Í Afganistan og Írak hefur flugherinn átt fullt í fangi með að verða við öllum óskum um að fá dróna á vettvang.
AP-fréttastofan lét fyrr á þessu ári kanna viðhorf almennings í Bandaríkjunum til notkunar dróna til að granda hryðjuverkamönnum, studdu 60% svarenda það. Í könnuninni kom fram að aðeins 13% Bandaríkjamanna eru andvígir notkun dróna og 24% láta notkun þeirra sér í léttu rúmi liggja.