Home / Fréttir / Bandaríkjastjórn býr sig undir aukna kafbátaleit frá Íslandi

Bandaríkjastjórn býr sig undir aukna kafbátaleit frá Íslandi

zdzri
Rússneskur kafbátur af Yasen-gerð.

Bandaríska varnarmálaráðuneytið býr sig undir að endurnýja flugvallaraðstöðu á Keflavíkurflugvelli þegar stjórnvöld í Washington leggja áherslu á að fylgjast með nýrri kynslóð torséðra rússneskra kafbáta sem sveima inn á Norður-Atlantshaf.

Á þennan veg hefst frétt á bandarísku vefsíðunni FP (Foreign Policy) mánudaginn 4. desember.  Þar segir að í fjárlögunum fyrir árið 2018 sem bíða staðfestingar Donalds Trumps forseta sé gert ráð fyrir 14,4 milljónum dollara (tæplega 1.500 m ISK) til að endurnýja flugskýli á Keflavíkurflugvelli svo að þar sér unnt að taka á móti fleiri bandarískum P-8 Poseidon eftirlitsflugvélum sem gegna lykilhlutverki í kafbátaleit.

Segir á vefsíðunni að til þessa sé gripið vegna ferða nýrra gerða af rússneskum kafbátum sem beri kjarnorku- eða venjuleg vopn og séu knúnir kjarnorku eða venjulegu afli um GIUK-hliðið á leið sinni frá Kóla-skaga út á Atlantshaf.

Johnny Michael, talsmaður varnarmálaráðuneytisins, staðfestir við FP að yfirvöld Bandaríkjanna og Íslands hafi samið um að fjölga heimsóknum bandarísku eftirlitsvélanna til Íslands á árinu 2018.

Bent er á að innan NATO hafi menn áhyggjur af hæfni bandalagsins til að staðsetja og fylgjast með rússnesku kafbátunum þegar þeir sveima hljóðlausir út á úthöfin. Embættismenn NATO viðurkenna að undanfarna tvo áratugi hafi bandalagið vanrækt kafbátaleit á svæði sem skipti sköpum í kalda stríðinu, athygli innan NATO hafi beinst að baráttu gegn sjóræningjum undan strönd Afríku og að stuðningi við landaðgerðir í Mið-Austurlöndum.

Michael Kofman, sérfræðingur í rússneskum málefnum við Center for Naval Analyses í Bandaríkjunum, segir að rússneski kafbátaflotinn sé nú betri en nokkru sinni frá falli Sovétríkjanna. Mikil áhersla hafi verið lögð á æfingar og viðbúnað innan flotans.

Í sovéska flotanum voru um 400 kafbátar en nú eru um 50 kafbátar í rússneska flotanum. Munurinn er sá að bátarnir nú eru háþróaðri og má líkja þeim við bandaríska kafbáta að sögn sérfræðinga. Magnus Nordeman hjá Atlantic Council segir: „Nú leggja þeir áherslu á gæði frekar en magn.“

Stolt rússneska flotans eru kjarnorkuknúnir kafbátar af Yasen-gerð sem eru búnir 32 stýriflaugum af Kalibr-gerð. Hve langt má skjóta flaugunum er háð óvissu en vitað er að þeim hefur verið skotið um 700 mílur úr kafbáti á skotmark í Sýrlandi. Nú er haldið úti tveimur kafbátum af Yasen-gerð og áform eru um að smíða átta til viðbótar á næstu árum.

Undir lok nóvember sagði Sir Philip Jones, yfirmaður breska flotans, að yfirburðir flota vestrænna landa væru að hverfa andspænis rísandi flotaþjóðum á borð við Rússa sem reyndu nú á getu breska flotans á heimahöfum hans.

 

 

 

 

 

Skoða einnig

Rússar við Kharkiv – Úkraínumenn sækja á Krím

Rússar hafa sótt fram á nokkrum stöðum í Úkraínu undanfarna daga en yfirhershöfðingi NATO í …