
Stjórnvöld í Úkraínu höfnuðu mánudaginn 25. apríl yfirlýsingu frá rússneska varnarmálaráðuneytinu um að Rússar hefðu samþykkt að opna örugga leið fyrir særða hermenn og almenna borgara frá Azostal stáliðjuverinu í Mariupol, hafnarborg við Azov-haf í suðurhluta Úkraínu sem hefur verið skotmark Rússa í tvo mánuði. Ekkert loforð Rússa um slíkt hefði verið kynnt.
Rússar halda Mariupol í herkví. Tugir þúsunda manna hafa flúið frá henni og mannfall hefur orðið mikið í átökum um borgina. Sagt er að hún sé í raun rústir einar eftir stöðugar sprengju- og stórskotaliðsárásir Rússa. Hópur almennra borgara og hermenn hafast við í risavöxnu stáliðjuveri við borgina og hindra að Rússar lýsi þar yfir fullum yfirráðum.
Vladimir Pútin Rússlandsforseti hefur opinberlega látið eins og her hans hafi borgina á valdi sínu. Svo er þó ekki sem leiðir til þess að Rússar halda þar úti herafla sem þeir hefðu annars notað til að leggja undir sig Donbas-hérað í austurhluta Úkraínu.
Meira en 5,2 milljónir Úkraínumanna hafa flúið land sitt síðan Rússar réðust inn í það fyrir tveimur mánuðum. Frá því í byrjun apríl hefur heldur hægt á straumi flóttafólks, alls hafa tæplega 1,2 m. manna yfirgefið Úkraínu í apríl en í mars voru flóttamennirnir 3,4 milljónir.
Konur og börn eru um það bil 90% þeirra sem flúið hafa frá Úkraínu til annarra landa. Körlum á aldrinum 18 til 60 ára er ætlað að sinna vörnum landsins.
Fyrir utan þá sem leitað hafa til annarra landa er talið að rúmlega 7,7 milljónir manna hafi misst heimili sín í Úkraínu og þess vegna flust á milli staða í landinu. Börn eru tæplega tveir þriðju þeirra haldið hafa til útlanda eða neyðst til að flytjast búferlum innan lands.
Bandarískir ráðherrar í Kyív
Antony Blinken utanríkisráðherra og Lloyd Austin, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, voru í Kyív sunnudaginn 24. apríl og hittu Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseta á þriggja klukkustunda fundi. Frá því að stríð hófst hafa svo háttsettir bandarískir embættismenn ekki fyrr sótt forsetann heim.
Að ferðinni lokinni sagði Austin við blaðamenn í Póllandi að Bandaríkjastjórn vildi sjá svo mikið dregið úr mætti Rússa að þeir hefðu ekki burði til árása á borð við þær sem þeir gerðu á Úkraínu.
Austin sagði einnig að Úkraínumenn gætu sigrað Rússa í stríðinu fengju þeir rétta búnaðinn til þess:
„Fyrsta skrefið til sigurs er að trúa því að þú getir unnið. Og þeir trúa að við getum unnið. Við trúum að við getum unnið, þeir geta unnið hafi þeir rétta búnaðinn, rétta stuðninginn.“
Antony Blinken sagði í Póllandi eftir ferðina til Kyív að miðað við markmið Rússa með stríðinu hefði þeim þegar mistekist að ná þeim en Úkraínumönnum hefði tekist það sem þeir ætluðu sér.
Bandarískir embættismenn sögðu að Austin og Blinken hefðu lofað Úkraínumönnum og nágrannaríkjum stuðningi sem meta mætti á 713 milljónir dollara. Þar fyrir utan væru 322 milljónir dollara í hernaðaraðstoð til Úkraínu. Stuðningur Bandaríkjanna til að efla öryggi Úkraínu næmi 3,7 milljörðum dollara frá því að innrás Rússa hófst.