
Bandaríska utanríkisráðuneytið tilkynnti fimmtudaginn 9. maí að það ætlaði að koma á fót skrifstofu á Grænlandi. Tilkynningin var birt eftir að Mike Pompeo utanríkisáðherra aflýsti heimsókn sinni til Nuuk, höfuðborgar Grænlands. Hann ætlaði þangað á leið sinni til Washington eftir fund í Norðurskautsráðinu í Rovaniemi í Finnlandi. Í stað þess að fara í vesturátt fór Pompeo í suður, í óvænta heimsókn til Íraks.
Stjórnvöld á Grænlandi fögnuðu tilkynningu utanríkisáðuneytisins. Grænleska heimastjórnin heldur úti skrifstofum í Washington, Ottawa, Kaupmannahöfn, Brussel og Reykjavík
„Grænland er hluti Norður-Ameríku. Ekki aðeins landfræðilega heldur einnig með vísan til uppruna okkar, menningar og tungu, allt þetta eigum við sameiginlegt með inuitum í Alaska og Norður-Kanada,“ sagði Ane Lone Bagger, utanríkisráðherra Grænlands, í yfirlýsingu. „Hvað sem líður landfræðilegri nálægð okkar mættu þó samvinna og efnahagsleg samskipti milli Grænlands og Bandaríkjanna vera miklu meiri. Við fögnum þess vegna ákvörðun Bandaríkjastjórnar um að opna að nýju fastaskrifstofu í Nuuk – við höfum um nóg að ræða. Starfsemi í Nuuk auðveldar Bandaríkjamönnum að skilja land okkar og þjóð en án slíks skilnings verður aldrei gott og árangursríkt samstarf í framtíðinni.“
Heimild: Arctic Today