Home / Fréttir / Bandaríkjastjórn aðstoðar Úkraínuher að nýju

Bandaríkjastjórn aðstoðar Úkraínuher að nýju

Joe Biden kynnir nýju aðstoðina við Úkraínu 24. apríl 2024.

Margra mánaða óvissu um hvort Bandaríkjaþing mundi samþykkja tillögu Joes Bidens forseta um 61 milljarðs dollara hernaðarstuðning við Úkraínu lauk miðvikudaginn 24. apríl þegar forsetinn skrifaði undir lög sem heimiluðu stjórn hans að veita aðstoðina.

„Á næstu klukkustundum – bókstaflega eftir um tvo tíma – munum við byrja að senda tæki til Úkraínu,“ sagði forsetinn síðdegis á miðvikudeginum.

Eftir margra mánaða þref í þinginu í Washington samþykkti fulltrúadeildin loksins heimild til forsetans um laugardaginn 20. apríl og öldungadeildin veitti endanlegt samþykki þriðjudaginn 23. apríl með 79 atkvæðum gegn 18.

Fyrstu sendinguna til Úkraínu fyrir um einn milljarð dollara tóku Bandaríkjamenn úr eigin birgðageymslum. Þar var meðal annars um að ræða: loftvarnaflaugar, skotvopn, stórskotavopn, brynvarin ökutæki, varahluti, vígvallarbúnað og hjúkrunartæki.

Undanfarna daga hafa borist fréttir um að Rússar hafi sótt fram á vígvellinum í austurhluta Úkraínu.

Volodymyr Zelenskíj, forseti Úkraínu, færði Bandaríkjamönnum þakkir fyrir aðstoðina á samfélagsmiðlinum X:

„Ég er þakklátur Biden forseta, þinginu og öllum Bandaríkjamönnum sem viðurkenna að við eigum frekar að rista jörðina undan fótum Pútins í stað þess að þóknast honum þar sem það er eina aðferðin sem dugar til að minnka ógnirnar við frelsið. Það getum við sameiginlega tryggt.“

 

 

Skoða einnig

Bardagareyndur hershöfðingi settur yfir rússnesku herstjórnina í norðvestri

Þriggja stjörnu hershöfðinginn Aleksandr Lapin var 15. maí skipaður yfirmaður Leningrad-herstjórnarsvæðisins í Rússlandi. Svæðið er …