Home / Fréttir / Bandaríkjamenn vilja öfluga, eigin ísbrjóta í Norður-Íshafi

Bandaríkjamenn vilja öfluga, eigin ísbrjóta í Norður-Íshafi

Tölvulíkan af væntanlegum ísbrjóti bandarísku strandgæslunnar.
Tölvulíkan af væntanlegum ísbrjóti bandarísku strandgæslunnar.

 

Eðli málsins samkvæmt er mikilvægt fyrir þjóðir sem eiga hagsmuna að gæta í Íshafinu og á nálægum slóðum að eiga ísbrjóta.  Þeir nýtast við björgunar- og rannsóknarstörf og við að ryðja skipaleiðir í gegnum ís.  Margir telja líka að með því að eiga flota ísbrjóta styrki ríki stöðu sína í valdataflinu á svæðinu.  Sú skoðun er reyndar umdeild.  Er áhugamönnum um áhrifavald ísbrjóta bent á greinina „The Icebreaker gap doesn´t mean the US is losing in the Arctic“ eftir stjórnmálafræðiprófessorinn Paul C. Avey.  Hún birtist í vefmiðlinum War on the Rocks í nóvember 2019.  Inntakið í greininni er að þar sem ísbrjótar auðveldi ríkjum ekki að takast á við öryggisáskoranir á norðurhjara sé tilgangslaust að meta áhrif og varnargetu ríkjanna þar út frá fjölda ísbrjóta í eigu þeirra.

Gera má ráð fyrir að ísbrjótar verði áfram tákn um styrk ríkja á norðurslóðum í huga almennings.  Mörg ríki eiga ísbrjóta sem nýta má á svæðinu.  Rússar eiga langstærsta flotann.  Fram kemur í grein á vefsíðunni Breaking Defense frá 23. apríl síðastliðnum að Rússar haldi útii fjörtíu ísbrjótum og áætlanir séu uppi um að smiða marga til viðbótar.  Þar af verði a.m.k. þrettán svokallaðir risaísbrjótar (e. heavy icebrakers) og níu þeirra kjarnorkuknúnir.

 

Bandaríkin eru langt á eftir Rússum á þessu sviði

Fjallað er um ísbrjóta Bandaríkjamanna í grein í tímaritinu Popular Mechanics frá 11. júní síðastliðnum.  Þar til fyrir nokkrum árum ráku Bandaríkin tvo risaísbrjóta, Pólstjörnuna (e. Polar Star) og Íshafið (e. Polar Sea).  Báðir eru komnir til ára sinna.  Pólstjarnan var tekin í notkun árið 1976 og Íshafið ári síðar.  Árið 2010 varð alvarleg bilum í vélum Íshafsins og hefur skipið ekki lagt úr höfn síðan.  Sex árum síðar bilaði rafall Pólstjörnunnar.  Segir sagan að viðgerðasett fyrir brimbretti hafi verið notað til að koma honum aftur í gang.  Pólstjarnan er ennþá í notkun en bandaríska strandgæslan, sem rekur ísbrjótana, hefur neyðst til þess á undanförnum misserum að taka vélbúnað úr ísbrjótnum Íshafinu til að halda skipinu gangandi.  Þriðji ísbrjótur Bandaríkjamanna, Healy, sem tekinn var í notkun á aldamótaárinu er mun fullkomnari en risaísbrjótarnir en hann ræður hins vegar ekki við jafn þykkan ís og þeir.

 

Bandaríkin hyggjast efla ísbrjótaflota sinn

Fyrir átta árum fór bandaríska strandgæslan að huga að endurnýjun ísbrjótaflotans.  Nefnist verkefnið á ensku „Polar Security Cutter“.  Hefur strandgæslan hug á að fá þrjá risaísbrjóta og þrjá miðlungi stóra í sína þjónustu.  Hugmyndir um að taka ísbrjóta á leigu þóttu ekki fýsilegar og því var í apríl í fyrra samið við skipasmíðastöð um smíði fyrsta risaísbrjótsins.  Áætlað er að taka hann í notkun árið 2024.

Ekki er víst að dagsetningin standist en  í Defense News þann 9. júní síðastliðinn segir að Bandaríkjaforseti hafi fyrirskipað endurmat á ísbrjótaáætlun stjórnvalda.  Meðal þess sem á að skoða er kostnaðaráætlunin, verkefni ísbrjótanna og hvort þeir eigi að vera kjarnorkuknúnir.  Einnig kemur fram í minnisblaði forsetans að stefnt sé að því að nýr ísbrjótafloti landsins verði að fullu kominn í gagnið árið 2029.

Aukinn áhugi Bandaríkjastjórnar á ísbrjótum er í samræmi við áhersluna sem stjórnvöld leggja nú á öryggismál á norðurslóðum.  Sem dæmi um stefnu stjórnvalda í Washington er nefnt í grein Defense News að í febrúar síðastliðnum hafi Michael J. Murphy, sem fer með öryggismál Evrópu í utanríkisráðuneytinu, verið kallaður fyrir þingnefnd til að ræða hvernig öryggisumhverfið á norðurslóðum er að breytast.  Nefndi hann að Bandaríkjamönnum og bandamönnum þeirra í Atlantshafsbandalaginu stæði ógn af hernaðaruppbyggingu Rússa á svæðinu.  Öryggi GIUK-hliðsins, þ.e. hafsvæðisins á milli Grænlands, Íslands og Bretlands, væri jafnvel í hættu og því þyrfti Bandaríkjastjórn að leggja enn meiri áherslu á öryggismál í þessum heimshluta.

 

Höfundur:

Kristinn Valdimarsson

 

Skoða einnig

Bardagareyndur hershöfðingi settur yfir rússnesku herstjórnina í norðvestri

Þriggja stjörnu hershöfðinginn Aleksandr Lapin var 15. maí skipaður yfirmaður Leningrad-herstjórnarsvæðisins í Rússlandi. Svæðið er …