Home / Fréttir / Bandaríkjamenn vilja fjölga flugheræfingum í Evrópu

Bandaríkjamenn vilja fjölga flugheræfingum í Evrópu

F-22 Raptor orrustuþota Bandaríkjanna.
F-22 Raptor orrustuþota Bandaríkjanna.

Bandaríkjastjórn stefnir að því að fjölga æfingum flughers síns með herjum einstakra Evrópuríkja til að bregðast við ögrandi flugi rússneskra hervéla sem færist í vöxt. Nú í vikunni hafa yfirmenn í bandaríska flughernum fundað með frönskum starfsbræðrum sínum í París að sögn The Wall Street Journal (WSJ). Efni fundanna var að ræða um fjölgun heræfinga og meta stöðuna í ljósi þess að Rússar eru betur búnir en áður til að beita vel þjálfuðum og vel tækjum búnum liðsafla.

Blaðamaður WSJ ræddi fimmtudaginn 21. apríl við Deboruh Lee James, flughermálaráðherra Bandaríkjanna, sem sagði að öryggiskennd Evrópubúa væri ekki raskað en nú yrði að leggja áherslu á að efla fælingarmátt til að halda aftur af glannalegu flugi Rússa. Fælingarmáttur næðist ekki nema með trúverðugleika.

Í fréttinni eru rifjuð upp atvikin á Eystrasalti í síðustu viku þegar tvær rússneskar orrustuþotur ögruðu bandarískum tundurspilli tvo daga í röð og flugmaður rússneskrar orrustuþotu velti sér síðan yfir bandaríska eftirlitsflugvél. Bandarískir embættismenn hafa lýst þessum aðförum Rússa sem áhættuflugi.

James sagði að Frakkar hefðu „kynnst svipaðri ófaglegri hegðun og glannaskap“ af hálfu rússneskra herflugmanna.

Rússneskur embættismaður sagði fimmtudaginn 21. apríl að rússnesk stjórnvöld höfnuðu ekki tvíhliða viðræðum um leiðir til að draga úr hættu á „hernaðarlegum atvikum“. Rússar mundu hins vegar ekki líta fram hjá auknum hernaðarumsvifum við landamæri sín.

Bandaríkjamenn hafa sent 12 F-22 orrustuþotur, fullkomnusti hervélar sínar, til æfinga með bandamönnum sínum í Evrópu. Miðvikudaginn 20. apríl tóku nokkrar vélanna þátt í hátíðarflugi yfir Frakklandi til minningar um bandaríska flughermenn í fyrri heimsstyrjöldinni sem flugu með franska hernum.

Bandaríski flugherinn efndi í fyrra til æfinga við Langley í Virginíuríki með þátttöku Breta og Frakka. Þar var æft hvernig bregðast skyldi við orrustuvélum á borð við hinar rússnesku þegar þeim væri flogið á ögrandi hátt.  Þar var einnig reynt að líkja eftir öflugum loftvörnum í rússnesku hólmlendunni Kaliningrad.

Heimild: WSJ

 

Skoða einnig

Úkraína hefur aldrei staðið nær NATO

Tveggja daga fundi utanríkisráðherra NATO-ríkjanna lauk í Brussel miðvikudaginn 29. nóvember. Þar var fjallað um …