Home / Fréttir / Bandaríkjamenn varpa risasprengju á hellakerfi Daesh í Afganistan

Bandaríkjamenn varpa risasprengju á hellakerfi Daesh í Afganistan

 

Bandaríska risasprengjan.
Bandaríska risasprengjan.

Stærstu sprengju Bandaríkjamanna fyrir utan kjarnorkusprengju, GBU-43 sprengju sem einnig er nefnd MOAB (móðir allra sprengna) var í fyrsta sinn varpað á skotmark í orrustu fimmtudaginn 13. apríl. Skotmarkið voru hellar og göng sem liðsmenn Daesh (Ríkis íslams) nota í fjallahéraði í Afganistan.

Adam Stump, talsmaður bandaríska varnarmálaráðuneytisins, staðfesti að þetta væri í fyrsta sinn sem þessi 11 tonna sprengja sem stýrt er með GPS-tækni væri notuð í hernaðarátökum.

John W. Nicholson,  yfirmaður bandaríska heraflans í Afganistan, sagði að sprengjan væri „rétta skotfærið“ til að nota gegn Daesh vegna þess að liðsmenn samtakanna nýttu sér sprengjur á og við vegi auk jarðbyrgja og ganga.

Sean Spicer, talsmaður Bandaríkjaforseta, sagði að skotmarkið hefði verið „net hella og ganga sem liðsmenn Daesh nota til að fara ferða sinna“. Þetta er í Achin-héraði í Nangarhar-fylki í austurhluta Afganistan, nálægt landamærum Pakistans.

Í yfirlýsingu bandaríska varnarmálaráðuneytisins sagði: „Árásin var gerð til að draga úr hættu sem steðjar að afgönskum og bandarískum hermönnum sem vinna að því að hreinsa svæðið og til að eyða sem flestum liðsmönnum ISIS-K (Daesh) og sem mestu af aðstöðu þeirra.“

Esmail Shinwari, héraðsstjóri Achin, sagði AFP-fréttastofunni að sprengjan hefði lent á Momand Dara svæðinu í Achin-héraði.

„Ég hef aldrei áður séð svona stóra sprengju. Rosalegir logar gleyptu svæðið,“ sagði Shinwari.

Donald Trump sagði fimmtudaginn 13. apríl að sprengingin hefði verið „enn ein mjög vel heppnuð aðgerð“. Trump vildi ekki segja hvort hann hefði gefið fyrirmæli um að kasta sprengjunni eða hvort hún væri viðvörun til Norður-Kóreumanna.

Bandaríkjamenn telja að milli 600 og 800 vígamenn Daesh séu í Afganistan, einkum í Nagarhar-fylki. Þá berjast Bandaríkjamenn einnig við hlið Afgana gegn Talíbönum.

Shinwari sagði að ef til vill hefðu margir farist. „Við vitum ekkert um mannfall á þessari stundu en þar sem þetta er víghreiður Daesh teljum við að margir liðsmenn Daesh hafi fallið.“

Bandaríkjaher gerði fyrstu tilraun með risasprengjuna í mars 2003. Bandaríski flugherinn segir að síðast þegar tilraun var gerð með sprengjuna hafi eldsúlan frá henni sést úr 32 km fjarlægð.

 

Skoða einnig

Bardagareyndur hershöfðingi settur yfir rússnesku herstjórnina í norðvestri

Þriggja stjörnu hershöfðinginn Aleksandr Lapin var 15. maí skipaður yfirmaður Leningrad-herstjórnarsvæðisins í Rússlandi. Svæðið er …