Home / Fréttir / Bandaríkjamenn vara við „banvænum stuðningi“ Kínverja við Rússa

Bandaríkjamenn vara við „banvænum stuðningi“ Kínverja við Rússa

Vladimir Pútin Rússlandsforseti og XI Jinping Kínaforseti.

Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, gaf til kynna í sjónvarpsviðtali sunnudaginn 19. febrúar að hann hefði upplýsingar um að Kínverjar ætluðu að veita Rússum „banvæna aðstoð“.

Utanríkisráðherrann sagði stjórnvöld í Peking kanna hvort leggja ætti Rússum til „vopn“ til að styðja innrás þeirra í Úkraínu. Ráðherrann ræddi fund sinn með Wang Yi, utanríkisráðherra Kína, til hliðar við öryggisráðstefnuna í München að kvöldi laugardagsins 18. febrúar.

„Við ræddum stríðsaðgerðir Rússa og áhyggjur okkar af því að Kínverjar hefðu í hyggju að veita Rússum banvæna aðstoð,“ sagði Blinken við CBS-sjónvarpsstöðina en hann hefði upplýsingar í þessa veru. Þegar hann var spurður hvað nákvæmlega fælist í þessum orðum hans svaraði utanríkisráðherrann: „Einkum er um að ræða vopn.“

Blinken sagði að umræðurnar á fundi hans með kínverska ráðherranum hefðu verið „hreinskiptnar og beinskeyttar“. Utanríkisráðherrann varaði við „áhrifum og afleiðingum“ þess fyrir Kínverja ef það reyndist rétt að Kínverjar veittu Rússum „efnislegan stuðning“ í stríði þeirra við Úkraínumenn eða ef þeir aðstoðuðu þá við að skjóta sér undan vestrænum refsiaðgerðum, sagði Ned Price, talsmaður bandaríska utanríkisráðuneytisins, þegar hann gerði blaðamönnum grein fyrir efni samtals ráðherranna.

Kamala Harris, varaforseti Bandaríkjanna, var einnig í München laugardaginn 18. febrúar. Í ræðu sinni þar lýsti hún efasemdum um að Kínverjar sætu hjá í stríðinu. Bandaríkjastjórn „stendur ekki á sama um hvernig ráðamenn í Peking hafa dýpkað samskipti sín við stjórnvöld í Moskvu frá því að stríðið hófst,“ sagði hún. „Sérhver viðleitni Kínverja sem miðar að því að láta Rússum í té banvænan stuðning ýtir aðeins undir árásir, magnar mannfall og grefur undan alþjóðaskipan sem reist er á lögum og reglum,“ sagði varaforsetinn.

Á dönsku vefsíðunni Berlingske.dk segir að grunur um að Kínverjar stæðu að baki Rússum í stríðinu hafi lengi búið um sig eins og sprengja sem kynni að raska öllu öryggiskerfi heimsins. Nú sé þetta að skýrast þegar Bandaríkjamenn hafi opinberlega varað bandamenn sína við ógnvekjandi þróun í stuðningi Kínverja við Rússa.

Bandaríska sjónvarpsstöðin CNN segir að vestrænar njósnastofnanir telji að til þessa hafi Kínverjar sent skotheld vesti og hjálma sem Rússar geti notað í Úkraínu. Á hinn bóginn hafi Kínverjar ekki til þessa orðið við óskum Rússa um vopn af ótta við fordæmingu á alþjóðavettvangi.

Nú hafi hins vegar orðið breyting á afstöðu Kínverja og bandarískar njósnastofnanir bendi á „ískyggilegar vísbendingar“ í stuðningi Kínverja við Rússa eins og það var orðað við CNN.

Víst er að sendi Kínverjar vopn til Rússa verður þeim mun auðveldara að verða sér úti um hertól og einkum skotfæri sem þeir geta notað gegn Úkraínumönnum. Það yrði Rússum til mikils happs auk þess sem þeir gætu að líkindum hafið eigin vopnaframleiðslu af krafti.

Skoða einnig

ESB-þingmenn hafna tillögum Orbáns um Úkraínu

Nýkjörið 720 manna ESB-þing kom saman til fyrsta fundar í Strassborg þriðjudaginn 16. júlí og …