Home / Fréttir / Bandaríkjamenn svara kjarnorkuhótunum Rússa

Bandaríkjamenn svara kjarnorkuhótunum Rússa

Paul J. Selva flughershöfðingi.
Paul J. Selva flughershöfðingi.

Geta Bandaríkjamanna til að koma í veg fyrir að ráðist sé á þá með langdrægum kjarnavopnum minnkar vegna þess að Rússar taka í notkun nýja tegund af vopnum. Þetta leiðir til þess að Bandaríkjamenn verða að bregðast við með nýjum kjarnorkuvopnakerfum sem kunna að ná til stýriflauga sem bera kjarnaodda og skotið er á loft á hafi úti.

Þetta sagði annar æðsti yfirmaður bandaríska heraflans, Paul J. Selva, flughershöfðingi og varaformaður bandaríska herráðsins, fimmtudaginn 25. apríl: „Fælingarmætti okkar er ógnað með nýrri gerð vopna. Við verðum að bregðast við því.“

Selva minnti á að Vladimir Pútin Rússlandsforseti hefði hvað eftir annað flutt ræður um það undanfarið hve Rússar hefðu náð langt við þróun nýrra kjarnavopna. Forsetanum hefði orðið tíðrætt um skammdræg kjarnavopn, Rússar hefðu átt þau lengi sagði Selva. Það sem vekti athygli nú væri ný stefna Rússa um að beita þeim snemma í átökum til að knýja Bandaríkjamenn til uppgjafar frekar en að svara með þungum, langdrægum vopnum. „Þeir kalla þetta að stigmagna til að af-stigmagna. Í því felst einfaldlega að grafa undan stöðugleika,“ sagði Selva.

Hann sagði að þar til fyrir fáeinum mánuðum hefðu Bandaríkjamenn ekki ráðið yfir neinum sambærilegum, skammdrægum kjarnavopnum. Þeir hefðu aðeins getað svarað með þungavopnum. Af þessum sökum hefði verið breytt um stefnu af hálfu bandaríska varnarmálaráðuneytisins og nú hefðu fyrstu skammdrægu, bandarísku kjarnavopnin verið afhent hernum.

Framleiðslu á slíkum vopnum var harðlega mótmælt í kalda stríðinu. Talið var að þau ykju líkur á að gripið yrði til kjarnavopna.

Þegar Selva var spurður hvar þessum kjarnaoddum væri ætlaður staður sagði hann einkum rætt um að setja þá í stýriflaugar um borð í skipum. Nú ættu Bandaríkjamenn engar stýriflaugar með kjarnaodda á hafi úti.

 

Heimild: Seapower

Skoða einnig

Spenna í Íran á eins ár minningardegi Amini sem lögregla myrti vegna skorts á höfuðslæðu

Íranir heima og erlendis minnast þess laugardaginn 16. september að eitt ár er liðið frá …