
Bandaríkjastjórn hyggst verja 214 milljónum dollara til að endurbæta og leggja flugvelli, skapa æfingaaðstöðu og byggja hernaðarmannvirki í austur- og norðurhluta Evrópu í þeim tilgangi að halda „sókn Rússa“ í skefjum segir í frétt Iran Press TV mánudaginn 18. desember.
Hernaðarlegu framkvæmdirnar verða við landamæri Rússlands en auk þess á Íslandi og í Noregi segir í fréttinni og þær séu hluti af 4,6 milljarða verkefni sem nefnist á ensku European Deterrence Initiative (EDI), – evrópska fælingarátakið – og var hleypt af stokkunum í forsetatíð Baracks Obama til „auka öryggiskennd“ evrópskra bandamanna Bandaríkjamanna og er þar vísað til málgagns bandaríska flughersins, Air Force Times.
EDI kom til sögunnar skömmu eftir að Rússar innlimuðu Krímskaga fyrri hluta árs 2014. Í lýsingu bandarískra stjórnvalda á EDI segir að fjárveitingar til verkefnisins geri kleift að halda Rússum í skefjum og verjast sókn þeirra. Þá muni aukið framlag undir merkjum EDI styrkja sameiginlegar varnir NATO.
Donald Trump ritaði undir fjárlög í þágu varna Bandaríkjanna í fyrri viku. Þar er að finna heimildir fyrir flugherinn til að kaupa land og reisa mannvirki erlendis.
Um er að ræða rúmlega 214 milljónir dollara um 23 milljarða ISK til að standa undir hernaðarlegum framkvæmdum í Lettlandi, Eistlandi, Slóvakíu, Ungverjalandi, Rúmeníu, Lúxemborg, Noregi og Íslandi. Áður hefur komið fram hér á síðunni að 14,4 milljónum dollara (tæplega 1.500 m ISK) á að verja til að endurnýja flugskýli á Keflavíkurflugvelli svo að þar sé unnt að taka á móti fleiri bandarískum P-8 Poseidon eftirlitsflugvélum sem gegna lykilhlutverki í kafbátaleit.
Annars staðar en hér á landi er gert ráð fyrir aðstöðu fyrir háþróaðar, torséðar orrustuvélar af gerðunum F-22 Raptor og F-25 Strike Fighter. Aðstaða fyrir kafbátaleitarvélar verður bætt víðar en hér á landi.
Í frétt Iran Press TV er vitnað í Rússa sem segja að aukin hervæðing við túngarð þeirra ógni svæðisbundnum stöðugleika.