Home / Fréttir / Bandaríkjamenn stórefla herafla sinn í Evrópu

Bandaríkjamenn stórefla herafla sinn í Evrópu

Joe Biden og Jens Stoltenberg á fundi í Madrid.

Bandaríkjamenn ætla að stórauka herafla sinn í Evrópu vegna hótana af hálfu Rússa eftir innrás þeirra í Úkraínu sagði Joe Biden Bandaríkjaforseti á fundi ríkisoddvita NATO í Madrid miðvikudaginn 29. júní.

Bandaríkjaforseti sagði að komið yrði á fót varanlegum höfuðstöðvum í Póllandi, tvær F-35 orrustuflugsveitir yrðu sendar til viðbótar til Bretlands auk þess sem loftvarnir yrðu styrktar í Þýskalandi og Ítalíu samhliða öðrum aðgerðum.

Tundurspillum verður fjölgað í flotastöð Bandaríkjamanna í Rota á Spáni í sex úr fjórum og þá verður hernaðarlegur viðbúnaður aukinn í Rúmeníu og Eystrasaltslöndunum.

„NATO er öflugt og einhuga og skrefin sem við stígum á þessum fundi verða til að auka sameiginlegan styrk okkar enn frekar. Í dag tilkynni ég að Bandaríkjamenn munu efla herafla sinn í Evrópu vegna breytinga sem orðið hafa á ástöðu öryggismála og einnig til að efla enn sameiginlegt öryggi okkar,“ sagði Biden eftir fund hans og Jens Stoltenbergs, framkvæmdastjóra NATO.

Mánudaginn 27. júní skýrði Stoltenberg frá því að fjölgað yrði í viðbragðsliði NATO í Evrópu úr 40.000 í 300.000.

Þriðjudaginn 28. júní féllu Tyrkir frá andstöðu sinni við aðild Finna og Svía ap NATO.

Miðvikudaginn 29. júní skýrir Joe Biden frá ákvörðuninni um að stórefla bandarískan liðsafla á lofti, landi og legi í Evrópu.

Á toppfundi NATO verður tekin ákvörðun um hvernig bandalagið verður lagað að breyttum aðstæðum í öryggismálum Evrópu og mótuð ný grunnstefna NATO í stað þeirrar sem staðið hefur óbreytt frá 2010 þegar litið var á Rússa sem „strategíska samstarfsmenn“. Nú er boðuð „grundvallarbreyting“ á afstöðu bandalagsþjóðanna.

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …