Home / Fréttir / Bandaríkjamenn stórauka jarðgassölu til Evrópu

Bandaríkjamenn stórauka jarðgassölu til Evrópu

Bandarískt jarðgas-flutningaskip.

Stofnað hefur verið til samstarfs milli Bandaríkjanna og ESB í því skyni að minnka mikilvægi rússneskra orkugjafa í Evrópu. Stefnt er að því að Bandaríkjamenn auki flutning á fljótandi jarðgasi (LNG) til Evrópu um 15 milljarða rúmmetra á þessu ári.

„Í dag höfum við orðið sammála um sameiginlega leikáætlun til framtíðar“ sem minnkar mikilvægi rússnesks gass fyrir Evrópu sagði Joe Biden Bandaríkjaforseti á sameiginlegum blaðamannafundi með Ursulu von der Leyen, forseta framkvæmdastjórnar ESB, föstudaginn 25. mars.

„Þetta kemur í stað jarðgass sem við fáum núna frá Rússlandi og sé litið til framtíðar munu Bandaríkin og Evrópa tryggja stöðugt framboð og birgðir sem nema allt að 50 milljörðum rúmmetra af bandarísku LNG fram til 2030,“ sagði von der Leyen, þetta magn mundi koma í stað eins þriðja af gasi sem flutt er inn frá Rússlandi.,

„Við erum á réttri leið núna í því skyni að færa okkur frá rússnesku gasi,“ sagði hún og lagði áherslu á samhliða þessu mundi ESB fjárfesta í öðrum orkugjöfum meðal annars endurnýjanlegum.

Orkusala skiptir höfuðmála fyrir ráðamenn í Moskvu til tekjuöflunar og pólitískra áhrifa, um 40% af gasi í ESB-löndunum kemur frá Rússlandi og er það nýtt til húshitunar og raforkuframleiðslu.

„Ég veit að það kostar sitt fyrir Evrópu að útiloka rússneskt gas en það er ekki aðeins rétt að gera það siðferðilega heldur styrkir það okkur einnig mjög strategískt,“ sagði Biden.

Í frétt Euronews um gasviðskiptin segir að það kunni að verða erfitt að flytja meira fljótandi jarðgas til Evrópu þótt Bandaríkjamenn hafi aukið gasútflutning sinn til mikilla muna undanfarin ár.

Aðstaða til útflutnings er víða fullnýtt og flestar nýjar útflutningsstöðvar eru enn á teikniborðinu. Að bæta aðstöðuna til útflutnings í Bandaríkjunum er aðeins ein hlið málsins, önnur er að koma upp móttökustöðvum í Evrópu. Þessar stöðvar eru á strandsvæðum og þar skortir gasleiðslur til dreifingar til neytenda.

Ekki eru allir sáttir við nýjar framkvæmdir við gashafnir og leiðslur, þær festi viðskiptavini til frambúðar við jarðefnaeldsneyti í stað þess auðvelda ESB að snúa sér að hættuminni orkugjöfum fyrir loftslagið. Auk þess sem orkusamstarfið hvetji til meiri vinnslu á jarðefnaeldsneyti í Bandaríkjunum. Skynsamlegasta leiðin til að losna undan gaskaupum frá Rússum sé að snúa sér að loftslagsvænum orkugjöfum.

 

Skoða einnig

Sænski forsætisráðherrann: Útilokar ekki kjarnavopn í stríði

Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, segir víðtæka samstöðu um að banna kjarnavopn á sænsku landsvæði á …