Home / Fréttir / Bandaríkjamenn senda þungavopn til austurhluta Evrópu

Bandaríkjamenn senda þungavopn til austurhluta Evrópu

Bandarískir brynvagnar.
Bandarískir brynvagnar.

Bandaríkjastjórn mun senda skriðdreka, bryndreka og stórskotavopn „tímabundið“ til sex Evrópulanda segir Ash Carter, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna. Áformin um sendingu þungavopnanna hafa verið til umræðu í fjölmiðlum frá 13. júní og hafa þegar kallað fram reiðileg viðbrögð stjórnvalda í Moskvu.

Bandarísku hergögnin verða send til Eistlands, Lettlands og Litháens en auk þess til Búlgaríu, Rúmeníu og Póllands sagði varnarmálaráðherrann á blaðamannafundi þriðjudaginn 23. júní í Tallinn, höfuðborg Eistlands.

Um er að ræða um 250 skriðdreka, brynvarin ökutæki fótgönguliða af Bradley-gerð og  sprengjuvörpur og fallbyssur á eigin flutningatækjum.

Blaðamannafundinn sátu varnarmálaráðherrar Eistlands, Lettlands og Litháens auk Bandaríkjamannsins og sagði hann að þungavopnin yrðu flutt á milli landanna þar sem þau yrðu notuð til þjálfunar og heræfinga.

Þessar fréttir um að hervarnir undir merkjum NATO verði auknar í austurhluta Evrópu koma daginn eftir að Carter upplýsti að Bandaríkjastjórn mundi leggja nýjum viðbragðsher NATO til tæki, flugvélar og mannafla.

Áður en Carter heimsótti Eystrasaltsríkin sagði embættismaður í rússneska varnarmálaráðuneytinu að sendu Bandaríkjamenn þungavopn til NATO-ríkja við landamæri Rússlands yrði það mest ögrandi aðgerð þeirra frá lokum kalda stríðsins.

Carter sagði einnig á fundinum í Tallinn að Bandaríkjamenn væru fúsir til að leggja meira af mörkum hernaðarlega til dæmis til að afla leynilegra upplýsinga og stunda eftirlit eða til að efla vopnabúnað. Þeir mundu hins vegar ekki senda stóran landher á vettvang.

 

Heimild: Dw.de

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …