
Um 6.000 liðsmenn úr landher Bandaríkjanna verða sendir til Evrópu á næsta ári segir í tilkynningu yfirstjórnar landhersins fimmtudaginn 3. nóvember. Er þetta liður í aðgerðum undir merkjum NATO til að treysta hernaðarlega stöðu gagvart Rússum.
Bandaríska varnarmálaráðuneytið hefur fengið 3,4 milljarða dollara fjárveitingu á fjárlagaárinu 2017 til að styrkja stöðu Bandaríkjahers í Evrópiu. Þetta er þreföld fjárhæð miðað við fjárlagaárið 2016. Hluti nýju fjárveitingarinnar verður nýttur til endurbóta á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli meðal annars til að bæta aðstöðu fyrir kafbátaleitarvélar.
Spenna milli Rússa og Bandaríkjamanna hefur magnast síðan Rússar innlimuðu Krímskaga og snerust gegn stjórnvöldum í Úkraínu í mars 2014. Þá er ástandið í Sýrlandi einnig þannig um þessar mundir að slitnað hefur upp úr friðarviðræðum með þátttöku Bandaríkjamanna og Rússa og skipst er á ögrandi orðsendingum.
Hætta er talin á að til árekstra komi yfir Sýrlandi milli bandarískra og rússneskra orrustuþotna. Fyrir nokkrum dögum skýrði bandaríska varnarmálaráðuneytið frá því að um miðjan október hefði aðeins um hálf míla verið milli rússneskrar og bandarískrar þotu á næturflugi yfir Sýrlandi.
Bandarískt stórfylki búið bryn- og skriðdrekum verður með aðalbækistöð í Póllandi og þaðan verða liðsmenn þess sendir til staða í Evrópu.
Herfylki með M1 Abrams-skriðdreaka verður í Eistlandi og Lettlandi en annað í Þýskalandi. Þá verða bryndrekar og skriðdrekar einnig sendir til Rúmeníu og Búlgaríu.
Þá verður stórfylki búið um 60 þyrlum þ. á m. CH-47 Chinooks og UH-60 Blackhawks með aðalbækistöð í Þýskalandi en útstöðvar í Lettlandi, Rúmeníu og Póllandi.