Home / Fréttir / Bandaríkjamenn reisa flugskýli fyrir P-8A kafbátaleitarvélar í Norður-Noregi

Bandaríkjamenn reisa flugskýli fyrir P-8A kafbátaleitarvélar í Norður-Noregi

Frá Evenes-flugvelli
Frá Evenes-flugvelli

Frank Bakke-Jensen, varnarmálaráðherra Noregs, ritaði föstudaginn 16. apríl undir samning við Bandaríkjastjórn sem heimilar henni að reisa flugskýli og leggja eldsneytiskerfi á Evenes-flugvelli, skammt frá Ramsund-flotastöðinni, fyrir kafbátaleitarvélar af gerðinni P-8A í bandaríska flotanum.

„Samningurinn eykur tækifæri Bandaríkjamanna og NATO til að verja Noreg,“ sagði varnarmálaráðherrann í símtali við Thomas Nilsen, ritstjóra norsku vefsíðunnar Barents Observer.

Thomas Nilsen segir að með nýja samningnum sé unnt að auka enn frekar hernaðarsamvinnu ríkjanna við Atlantshafs í norðurhluta Evrópu.

Evenes-flugvöllur er norðan við heimskautsbaug og nýju mannvirkin verða reist og kostuð af Bandaríkjastjórn í því skyni að þjóna bandarískum eftirlitsflugvélum og vélum annarra NATO-ríkja sem athafna sig á hernaðarlega mikilvægum slóðum yfir Noregshafi.

Kafbátar úr Norðurflota Rússa fara nú oftar og um stærra svæði en áður undan norðurströnd Noregs. Þetta eru nýir, hljóðlátir kafbátar búnir stýriflaugum sem skjóta má til skotmarka í meiri fjarlægð en áður. Vegna þessarar þróunar telja NATO-ríkin þörf á gagnaðgerðum frá Norður-Noregi.

Kafbátarleitarvélum NATO-ríkja fjölgar ár frá ári. Bandaríski flotinn hefur haldið úti P-8A Poseidon vélunum í nokkur ár. Bretar eignuðust fyrstu vélar sínar af þessari gerð í fyrra og Norðmenn eiga fimm slíkar vélar í smíðum hjá Boeing-verksmiðjunum. Er þess vænst að fyrsta vélin verði afhent á árinu 2022. Kjarnorkuknúni, rússneski kafbátaflotinn stækkar einnig jafnt og þétt. Nú eru 15 kafbátar í smíðum í Sevmash-skipasmíðastöðinni í Severodvinsk á Kólaskaga.

Í samtalinu við Barents Observer sagði Frank Bakke-Jensen varnarmálaráðherra að efla þyrfti eftirlit frá Noregi vegna fjölgunar ferða rússnesku kafbátanna. Nýi samningurinn yki inntak varnarsamstarf Norðmanna og Bandaríkjamanna.

Enskt heiti samningsins er Supplementary Defense Cooperation Agreement (SDCA), viðbótarsamningur um varnarsamstarf. Þar er mælt fyrir um afnot af svæðum í hernaðarlegum tilgangi. Bandaríkjamenn nýta sér þessa aðstöðu í samræmi við fullveldisrétt Norðmanna, norsk lög og alþjóðalög.

Fjórir staðir eru nefndir í samningnum; þrír flugvellir: Rygge, Sola og Evenes og auk þess Ramsund-flotastöðin. Rygge og Sola eru í suðurhluta Noregs en Evenes og Ramsund milli bæjanna Narvíkur og Harstad í norðurhluta Noregs.

norge-lofoten-karta

Bakke-Jensen lagði áherslu á að samningurinn gerði ekki ráð fyrir fastri viðveru bandarískra hermanna í Noregi.

„Í samningnum er tekið fram að Bandaríkjastjórn virði að fullu stefnu Noregs vegna varnarstöðva, erlendar varnarstöðvar séru óheimilar í landinu,“ sagði Frank Bakke-Jensen.

Thomas Nilsen spyr hvort samningurinn sé beint til þess fallinn að hægja á neikvæðri þróun öryggismála á norðurslóðum.

„Spenna gagnvart Rússum magnast ekki vegna þessa samnings,“ svaraði varnarmálaráðherrann. „Hér liggur nú fyrir opinbert skjal þar sem við segjum öllum hvað við erum að gera. Samningurinn auðveldar samvinnu milli Norðmanna og Bandaríkjamanna.“

Í samningnum er áréttað að hvorki megi vera kjarnorkuvopn um borð í herskipum í norskum höfnum né flugvélum sem nýta sér norska flugvelli.

Ine Eriksen Søreide, utanríkisráðherra Noregs, sagði á blaðamannafundi í Osló að samningurinn yrði til þess að styrkja öryggi Noregs. „Í krafti samningsins geta Bandaríkjamenn æft sig betur með norska hernum,“ sagði utanríkisráðherrann.

Skoða einnig

ESB-þingmenn hafna tillögum Orbáns um Úkraínu

Nýkjörið 720 manna ESB-þing kom saman til fyrsta fundar í Strassborg þriðjudaginn 16. júlí og …