
Bandaríkjamenn og Rússar hafa náð samkomulagi um víðtækt vopnahlé sem ætlað er að binda enda á fimm ára stríð í Sýrlandi. Með samkomulaginu er lagður grunnur að pólitískri lausn á átökum sem hafa orðið meira en 200.000 manns að aldurtila.
John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, og Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, kynntu efni samkomulagsins aðfaranótt laugardags 10. september í Genf. Þeir sögðu að um allt Sýrland yrði „átökum hætt“ við sólsetur mánudaginn 12. september þegar múslimar halda hátíðlegan helgidag sinn Eid al-Adha.
„Sé áætluninni fylgt fram af heilum huga getur þetta verið augnablikið sem unnt er að nýta til að hefja fjölhliða viðræður við samningaborðið um hvernig í raun má tryggja sýrlensku þjóðinni stjórnmálaleg umskipti,“ sagði Kerry.
Utanríkisráðherrann lagði áherslu á að í samkomulaginu fælist „tækifæri“ fyrir deiluaðila, samningar tækjust aðeins ef stigin yrðu raunveruleg skref í landinu sjálfu.
Kerry benti á að allir hópar stjórnarandstöðunnar í landinu yrðu að virða vopnahléð en í samkomulaginu væri einnig mælt fyrir um að ríkisstjórnin mætti ekki „senda orrustuvélar til staða þar sem stjórnandstaðan“ væri, það væri algjört skilyrði þess að hlé yrði á átökum.
Komið verður á „vopnlausu svæði“ við Castello-veg í Aleppo þar sem barist hefur verið mánuðum saman. Hermenn stjórnar og stjórnarandstöðu hafa tekist harkalega á um þennan veg.
Haldi vopnahléð í sjö daga munu stjórnvöld í Washington og Moskvu hefja sameiginlegar hernaðaraðgerðir gegn hryðjuverkasveitum sem kallast annars vegar Nusra og eru hluti al-Kaída samtakanna og hins vegar Ríki íslams eða Daesh.
Lavrov sagði fréttamönnum að fyrir lægju drög að stærð svæða sem ráðist yrði á til að útrýma þessum hryðjuverkahópum: „Við munum sameiginlega ákveða árásir flugherja Rússa og Bandaríkjamanna á hryðjuverkamennina. Við höfum samið um svæðin þar sem til þessara árása kemur,“ sagði Lavrov.
Ash Carter, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, og James Clapper, æðsti yfirmaður bandarískra njósnastofnana, hafa gagnrýnt þann þátt samkomulagsins sem snýr að miðlun leynilegra upplýsinga og segja að með því kunni að verða vegið að bandarískum hagsmunum.
Átökin í Sýrlandi hófust árið 2011 þegar stjórnarher landsins greip til harkalegra aðgerða gegn lýðræðissinnum sem kröfðust þess að Bashar al-Assad forseti segði af sér.
Að minnsta kosti 200.000 manns hafa fallið í stríðinu, sumir segja að talan sé nærri 500.000. Meira en helmingur Sýrlendinga hefur orðið að yfirgefa heimili sín og margir lagt á flótta til Evrópu.