Home / Fréttir / Bandaríkjamenn og Bretar ráðast á Húta í Jemen

Bandaríkjamenn og Bretar ráðast á Húta í Jemen

Bandarískar og breskar hervélar voru aðfaranótt 11. janúar sendar til árása á rúmlega 60 hernaðarleg skotmörk Hútí-hreyfingarinnar í Jemen. Hún nýtur stuðnings stjórnvalda Íran. Ýmsir herfræðingar telja að þetta kunni að stigmagna átök vegna hættuástands sem skapast hefur á Rauðahafi. Þar hafa Hútar í Jemen ráðist á flutningaskip til að hefna fyrir stríðið á Gaza.

Eftir árásirnar hótuðu Hútar að hefna sín. Talsmaður hreyfingarinnar sagði að ekki yrði látið hjá líða að refsa fyrir árásirnar og grípa til gagnaðgerða. Þetta yrði Vesturlöndum „dýrkeypt“.

Flugherstjórn Bandaríkjanna sagði að gerðar hefðu verið árásir á rúmlega 60 skotmörk á 16 stöðum í Jemen vegna þess að Hútar hefðu með stuðningi Írana sent flugskeyti og dróna á skip á Rauðahafi.

Hútar sögðu að 73 loftárásir hefðu verið gerðar, fimm félagar í Húti-hreyfingunni hefðu fallið og sex særst.

Frá Jemen berast fréttir frá vitnum sem segja að sprengjur hafi sprungið víðsvegar um landið. Það hafi meðal annars verið skotið á herstöð við flugvöllinn í Sana, herstöð nálægt Taiz-flugvelli, flotastöð í Hodeidah og herstöðvar á Hajjah landstjórnarsvæðinu.

Joe Biden Bandaríkjaforseti sagði að í árásunum fælust „skýr skilaboð“ til Hútí-hreyfingarinnar og hann „hiki ekki við“ að ráðast á hana aftur sé það nauðsynlegt.

Íranir hafa brugðist harkalega við árásinni og sagt hana brot á fullveldi Jemens. Er þetta túlkað á þann veg að Íranir líti á loftárásirnar sem stigmögnun stríðsins á Gaza þar sem Hamas-hryðjuverkahópurinn, skjólstæðingur Írana, á undir högg að sækja.

Íranir halda úti Hizbollah-hreyfingunni í Suður-Líbanon. Hugsanlega virkja þeir hana til að herða árásir á Ísrael. Þá kunna Íranir að trufla olíuskip á leið til Vesturlanda á Persaflóa fyrir utan að ýta enn frekar undir árásir Húta á skip á Rauðahafi.

 

 

 

 

 

 

Skoða einnig

Harðnandi hótanir Pútins og staðfastur stuðningur Bidens

Joe Biden Bandaríkjaforseti er í opinberri heimsókn í París laugardaginn 8. júní. Á fundi með …