Home / Fréttir / Bandaríkjaher kannar aðstæður á Jan Mayen-flugvelli

Bandaríkjaher kannar aðstæður á Jan Mayen-flugvelli

Flutningavél norska flughersins á Jan Mayen.
Flutningavél norska flughersins á Jan Mayen.

Bandaríski flugherinn sendi menn til Jan Mayen í nóvember 2019 til að kanna hvort lenda mætti bandarískum flutningavélum á flugvelli eyjunnar. Bandaríska varnarmálaráðuneytið birti fréttatilkynningu um ferðina 25. desember 2019 og frétt um hana birtist í Business Insider 14. janúar 2020 eftir að norska varnarmálaráðuneytið fór þess á leit við Bandaríkjamenn að flugvélar þeirra ættu hlut að reglulegum birgðaflutningum til eyjarinnar.

Þetta kemur fram í frétt sem Kevin McGwin birti á vefsíðunni Arctic Today föstudaginn 31. janúar 2020.

Upphaflega var áhersla lögð á að bandaríska varnarmálaráðuneytið byði fram aðstoð sína og flugvélar á þess vegum mundu aðeins flytja menn og vistir en síðan sögðu fulltrúar bandaríska flughersins við Business Insider að Jan Mayen skapaði bandarískum flugvélum á norðurslóðum „annan kost“.

Kevin McGwin bendir á að Jan Mayen hafi á þriðja áratug síðustu aldar hlotið viðurkenningu sem hluti Noregs. Stjórnsýsla þar sé á forsjá fylkisstjórans í Norland í Noregi. Þar hafi enginn fasta búsett en 14 þeirra 18 sem búi þar séu á vegum norska varnarmálaráðuneytisins, aðeins stöðvarstjórinn sé þó í norska hernum. Það sé einkum verkefnum norska hersins að tryggja viðveru Norðmanna á eyjunni og það sé á hans forjá að birgðaflutningavélar fljúgi þangað tvisvar í mánuði.

Þá segir í fréttinni að fyrir Norðmenn hafi reynst erfiðara en áður að sinna þessum loftflutningum eftir að norski flugherinn ákvað í apríl 2019 að ein af fjórum flutningavélum hans yrði í Malí vegna friðargæslu á vegum Sameinuðu þjóðanna þar.

Þótt norskar flugvélar noti Jan Mayen flugbrautina reglulega verða bandarískir sérfræðingar að taka út allar aðstæður áður en bandarískar flugvélar eru sendar þangað. Bandaríski flugherinn segir að þessir sérfræðingar séu þjálfaðir í gerð og viðhaldi flugbrauta þar sem aðstæður eru erfiðar.

Á þessu franska landakorti má sjá fjarlægðir frá Jan Mayen til nágrannalanda.
Á þessu franska landakorti má sjá fjarlægðir frá Jan Mayen til nágrannalanda.

Kevin McGwin segir að gagnsemi starfseminnar á Jan Mayen felist einkum í veðurathugunum. Í Pentagon, bandaríska varnarmálaráðuneytinu, átti menn sig hins vegar einnig á „strategískri“ legu eyjarinnar fyrir norðan heimskautsbaug við siglingaleiðir sem tengja rússneska flotann við Atlantshaf.

Blaðamaðurinn segir að könnun aðstæðna á Jan Mayen sé gerð um sömu mundir og bandarískir herforingjar veki hvað eftir annað athygli á viðleitni Rússa til að endurvekja kafbátastyrk sinn í Norður-Atlantshafi. Þá veki það áhyggjur manna í Washington að Rússar hafi náð hernaðarlegu forskoti á svæði sem hefur sífellt meira hagrænt gildi.

Til að bregðast við þessari þróun hafi 2. floti Bandaríkjanna, Atlantshafsflotinn, verið endurvirkjaður á árinu 2019. Hann hafi það hlutverk að halda uppi eftirliti á öllu Atlantshafi og í Norðurhöfum. Um leið og aðstaða sé endurbætt í Keflavíkurstöðinni gefi aðstaða á Jan Mayen Bandaríkjamönnum aukið svigrúm til að umkringja rússneska kafbáta sem reyna að komast út á Atlantshaf frá höfnum við Barentshaf og hindra þá í að komast í gegnum GIUK-hliðið (hafsvæðin frá Grænlandi um Ísland til Bretlands). Eitt lykilhlutverka bandaríska hersins í kalda stríðinu hafi verið gæsla á þessum slóðum. Henni hafi verið hætt þegar ógnin af Rússum hvarf og bandaríska hernum var beint til Íraks og Afganistan.

Undir lok fréttar sinnar segir Kevin McGwin að Bandaríkjamenn hafi getað dregið úr hættunni af sovéskum kafbátum með því að halda þeim norðan við GIUK-hliðið í kalda stríðinu en nú sé aðstaðan önnur þegar Rússar hafi þróað langdrægari vopn. Af því leiði að Bandaríkjamenn stefni líklega að því að halda Rússum norðar og er þar til staðfestingar vitnað í Steve Wills hjá hugveitunni Center for Naval Analysis.

„Með því að vísa til GIUK-hliðsins minna menn því miður aðeins á liðin tíma og allt annað strategískt ástand en ríkir í dag,“ sagði hann í grein árið 2018 eftir að bandaríska flotastjórnin tilkynnti að 2. flotinn yrði endurvirkjaður.

 

 

 

Skoða einnig

NATO verður að móta norðurslóðastefnu til að svara umsvifum Rússa frá Kólaskaga

Liselotte Odgaard er Senior Fellow, Hudson Institute, Washington, D.C. Greinin sem hér er sagt frá …