
Stjórn Trumps vinnur að gerð nýrrar varnarstefnu fyrir norðurskautssvæðið þar sem ríkt tillit er tekið til keppninnar við Kínverja. Háttsettir bandarískir embættismenn fylgjast æ betur með því sem Kínverjar taka sér fyrir hendur um heima allan. Þannig hefst frétt í The Washington Post föstudaginn 15. mars.
Í skjalinu verður dregið fram hvernig varnarmálaráðuneytið „getur best varið þjóðarhagsmuni Bandaríkjanna og stuðlað að öryggi og stöðugleika á norðurskautssvæðinu“ sagði Johnny Michael, talsmaður varnarmálaráðuneytisins. Hann sagði þetta verða gert innan ramma varnarstefnunnar sem Bandaríkjastjórn kynnti í fyrra þar sem áherslan breyttist á þann veg að meginathygli beinist nú að „stórvelda-keppni“ við Rússa og Kínverja en ekki að aðgerðum gegn hryðjuverkum.
Fulltrúadeild Bandaríkjaþings óskaði eftir að samin yrði skýrsla um varnarstefnuna á norðurslóðum og henni skilað í júní 2019. Að gerð skýrslunnar vinna fulltrúar varnarmálaráðuneytsins og starfsmenn þjóðaröryggisráðsins í skrifstofu Bandaríkjaforseta.
Í fréttinni segir að umræður verði nú um þessi mál á sama tíma og bandarískir embættismenn á sviði öryggismála líti æ meira til norðurs. Minnt er á að í október hafi bandarískt flugmóðurskip siglt norður fyrir heimskautsbaug í fyrsta sinn í rúm 30 ár, orrustuþotum hafi verið fjölgað í Alaska og búið sé í haginn fyrir P-8 kafbátaleitarvélar flotans á Íslandi.
Blaðið segir að árum saman hafi bandarískir embættismenn varað við vaxandi hervæðingu á norðurskautssvæðinu vegna þess að siglingar aukast þar með bráðnun íssins. Athyglin hafi ekki síst beinst að Rússum sem eigi meira en 40 ísbrjóta, hafi opnað að nýju herstöðvar sem lokað var við hrun Sovétríkjanna og hafi komið þar fyrir loftvarnaflaugum.
Rússar hafi lögmætra hagsmuna að gæta á svæðinu enda eigi þeir mest land allra þjóða að Norður-Íshafi. Rússar og Bandaríkjamenn eigi samstarf þar um leit og björgun lendi menn í sjávarháska.
Öðru máli gegni um Kínverja, þeir eigi ekkert land að Norður-Íshafi en hafi í fyrra skilgreint sig sem „nálæga norðurskautsþjóð“ í því skyni að þröngva sér inn í umræður um norðurskautsmál og til að verja „pól-silki-leiðina“ sem yrði siglingaleið með kínverskan varning frá Asíu til Evrópu.
Minnt er á að stjórnvöld í Peking hafi viljað fjármagna verkefni á svæðinu með lánum, til dæmis til þriggja flugvalla á Grænlandi sem hafi dregið að sér athygli Jims Mattis, þáv. varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, sem taldi vellina hafa hernaðarlegt gildi. Hafi ráðherrann lagt áherslu á það við dönsk stjórnvöld að þau ættu að fjármagna mannvirkjagerðina og hefði það gengið eftir með kostnaðarþátttöku af hálfu bandaríska varnarmálaráðuneytisins.