Home / Fréttir / Bandaríkjamenn fella foringa Ríkis íslams sem „vælandi hugleysingja“ að sögn Trumps

Bandaríkjamenn fella foringa Ríkis íslams sem „vælandi hugleysingja“ að sögn Trumps

Eina skiptið sem Baghdadi kom fram opinberlega og náðist af honum mynd var í Mósul árið 2014 þegar hann stofnaði „kalífatið“.
Eina skiptið sem Baghdadi kom fram opinberlega og náðist af honum mynd var í Mósul árið 2014 þegar hann stofnaði „kalífatið“.

Bandaríkjaher braust inn í búðir leiðtoga hryðjuverkasamtakanna Ríkis íslams (IS) í norðvestur hluta Sýrlands að kvöldi laugardags 26. október og felldi hann. Donald Trump Bandaríkjaforseti skýrði frá þessu á blaðamannafundi klukkan rúmlega 13.00 (09.00 í Washington) sunnudaginn 27. október.

Trump sagði að hryðjuverkaforinginn, Abu Bakr al-Baghdadi, hefði fallið sem „vælandi hugleysingi“. Hann hefði lokast inn í göngum og sprengt sig og þrjú börn sín í loft upp.

Trump sagði að hættulegasti hluti aðgerðarinnar hefði verið að koma bandarísku hermönnunum til og frá búðum Baghdadis í Idlib-héraði. Átta þyrlur hefðu verið notaðar og þeim flogið í tæpa tvo klukkutíma fram og til baka yfir hættulegt svæði. Samvinna hefði verið Rússa, Tyrki, Sýrlendinga og Kúrda. Forsetinn vildi ekki segja hvaðan Bandaríkjamenn hefðu gert árásina. Hann sagði alla Bandaríkjamennina hafa snúið heila til baka, aðeins einn hundur þeirra hefði særst,

Abu Bakr al-Baghdadi dró að sér heimsathygli árið 2014 þegar hann kynnti „kalífatið“ til sögunnar á landi sem áður var hluti Íraks og Sýrlands. IS vann mörg grimmdarverk og varð þúsundum manna að bana.

Öfgafullur hópur íslamista kom á fót ógnarstjórn yfir nærri átta milljónum manna á yfirráðasvæði sínu og stóð að baki hryðjuverkaárásum í borgum víða um heim. Fyrr á þessu ári lýstu Bandaríkjamenn yfir að „kalífatið“ væri fallið.

Sótt var að hryðjuverkaforingjanum Baghadadi í Idlib héraði og kom á óvart að hann skyldi hadla sig þar.
Sótt var að hryðjuverkaforingjanum Baghdadi í Idlib héraði og kom á óvart að hann skyldi hadla sig þar.

Í yfirlýsingunni sem Trump las á blaðamannafundi sínum sagði hann að Bgahdadi hefði fallið þegar hann hljóp inn í lokuð göng „vælandi, grátandi og öskrandi“ á flótta undan hundum bandarísku hermannanna.

Baghdadi hafði þrjú ung börn sín með sér á flóttanum að sögn Trumps og virkjaði sjálfsmorðsvesti sitt, varð sprengjan þeim öllum að bana. Líkami Baghdadis tættist í sundur en rannsókn á líkamsleifunum staðfesti hver þarna hafði látist.

„Skúrkurinn sem lagði svo hart að sér við að hræða aðra lauk síðustu andartökum sínum heltekinn ótta, skelfingu lostinn af hræðslu við bandarísku hermennina sem sóttu að honum,“ sagði Trump.

Með Baghdadi féll hópur fylgismanna hans en enginn Bandaríkjamaður. Trump sagði að náðst hefðu „mjög viðkvæm gögn og upplýsingar“.

Raunverulegt nafn Baghdadis var Ibrahim Awwad Ibrahim al-Badri. Hann ávann sér orð fyrir að vera nákvæmur og ósvífinn skipuleggjandi átaka.

Hann fæddist skammt frá Samarra, fyrir norðan Bagdad, árið 1971. Talið er að hann hafi verið klerkur í borginni um það leyti sem Bandaríkjamenn réðust inn í Írak árið 2003.

Sumir telja að heilagt stríð sitt hafi hann hafið á meðan Saddam Hussein einræðisherra réð enn ríkjum í Írak. Aðrir segja að hann hafi fyllst öfgahyggju þegar hann sat inni í Bucca-fangabúðunumum sem Bandaríkjamenn stjórnuðu í suðurhluta Íraks. Þar voru margir forystumenn al-Kaída hryðjuverkasamtakanna í haldi.

Árið 2010 kom Baghdadi fram á sjónarsviðið sem leiðtogi regnhlífarsamtaka sem náðu meðal annars til al-Kaída í Írak og urðu að forystuafli þegar IS-hryðjuverkamenn lögðu undir sig írösku borgina Mosúl árið 2014 en eftir það var „kalífatið“ stofnað með formlegri yfirlýsingu.

Þá birtist Baghdadi í eina skiptið opinberlega. Hann sást aftur á myndbandi sem IS birti fyrr á þessu ári.

Bandríkjastjórn lýsti hann opinberlega „hryðjuverkamann“ í október 2011 og setti 10 milljónir dollara til höfuðs honum. Fjárhæðin var hækkuð í 25 milljónir árið 2017.

 

 

 

 

 

Skoða einnig

Úkraína hefur aldrei staðið nær NATO

Tveggja daga fundi utanríkisráðherra NATO-ríkjanna lauk í Brussel miðvikudaginn 29. nóvember. Þar var fjallað um …