Home / Fréttir / Bandaríkjamenn efla flugher sinn í Evrópu með háþróuðum orrustuvélum

Bandaríkjamenn efla flugher sinn í Evrópu með háþróuðum orrustuvélum

Torséðar F-22 orrustuvélar
Torséðar F-22 orrustuvélar

Í skugga átakanna í Austur-Úkraínu ætlar Bandaríkjastjórn að hafa háþróaðar orrustuþotur af gerðinni F-22 Raptor í herflugstöðvum í Evrópu – þetta eru kallaðar torséðar (stealth) vélar þar sem erfitt er að finna þær eða fylgjast með þeim í ratsjám.

„Við munum brátt hafa F-22 vélar í stöðvum í Evrópu til að verða við óskum yfirmanna hersins þar og innan ramma samstarfs okkar til stuðnings Evrópuríkjum,“ sagði Deborah Lee James, fulltrúi bandaríska flughersins, á blaðamannafundi í Washington mánudaginn 24. ágúst. Flugmenn F-22 vélanna gætu þá stundað æfingar með flugmönnum frá öðrum NATO-ríkjum.

James sagði að ákvörðunin um að hafa vélarnar í Evrópu væri hluti víðtækrar heildarstefnu til stuðnings NATO-ríkjum í austurhluta Evrópu. „Að okkar mati og evrópskra bandamanna okkar er rík ástæða til að hafa áhyggjur af hernaðarumsvifum Rússa í Úkraínu,“ sagði hún án þess að geta um fjölda F-22 vélanna sem yrðu í Evrópu eða hvar og hvenær þær yrðu þar.  F-22 vélarnar eru sérhannaðar til að takast á við óvinavélar á lofti en þær má einnig nota til árása á skotmörk á jörðu niðri.

F-22 vélarnar voru fyrst teknar í notkun árið 2005. Á þær reyndi fyrst í átökum í september 2014 þegar gripið var til fjölþjóðlegra loftárása á Íslamska ríkið í Írak og Sýrlandi. Bandaríski flugherinn á um 180 vélar af þessari gerð.

Heimild: Frankfurter Allgemeine Zeitung

Skoða einnig

Úkraínuher fær F-16-þotur að lokinni þjálfun flugmanna

Bandaríkjastjórn hefur heimilað stjórnvöldum bandalagsríkja sinna að gefa Úkraínumönnum F-16-orrustuþotur. Þar með aukast líkur á …