Home / Fréttir / Bandaríkjamenn drepa al-Kaída foringja með dróna í Kabúl

Bandaríkjamenn drepa al-Kaída foringja með dróna í Kabúl

Ayman al-Zawahiri

Bandaríkjamenn drápu al-Kaída foringjann Ayman al-Zawahiri með „nákvæmu“ skoti úr dróna í miðborg Kabúl, höfuðborg Afganistans. Í ávarpi til bandarísku þjóðarinnar að kvöldi 1. ágúst sagði Joe Biden Bandaríkjaforseti að með falli al-Zawahiris hefði hryðjuverkasamtökunum al-Kaída verið veitt þyngsta höggið frá því að stofnandi þeirra Osama bin Landen var drepinn árið 2011.

Ayman al-Zawahiri var læknir frá Egyptalandi og höfðu 25 milljón dollarar verið settir honum til höfuðs. Hann átti aðild að árásinni í New York og Washington 11. september 2001 þar sem tæplega 3.000 manns féllu.

Bandarskir heimildarmenn segja að Ayman al-Zawahiri hafi verið drepinn þegar hann steig út á svalir á „örugga húsinu“ þar sem hann bjó í Kabúl. Hafi svonefnd hellfire-flaug verið notuð gegn honum úr drónanum.

„Nú hefur réttlætið náð fram að ganga þessi hryðjuverkaleiðtogi er úr sögunni,“ sagði Joe Biden í ávarpi sem hann flttti í Hvíta húsinu í Washington 1. ágúst. „Það skiptir ekki hve langan tíma það tekur eða hvar þú felur þig, ógnir þú þjóð okkar, finna Bandaríkin þig og refsa þér.“

Forsetinn sagðist hafa heimilað árásina í miðborg Kabúl og enginn almennur borgari hefði fallið.

Þrír talsmenn Talibana-stjórnarinnar í Kabúl neituðu að segja nokkuð við fréttaritara Reuters um dauða Zawahiris. Áður hafði Zabihuallah Mujahid, upplýsingafulltrúi Talibana, staðfest að sunnudaginn 31. júlí hefði áras verið gerð í Kabúl. Fór hann hörðum orðum um hana og sagði brot á „alþjóðlegum grundvallarreglum“. Talsmaður innanríkisráðuneytisins sagði að gerð hefði verið árás á hús í Sherpoor-hverfi, fínu íbúðarhúsahverfi höfuðborgarinnar þar sem einnig eru nokkur sendiráð. Talsmaðurinn sagði engan hafa sakað, „húsið var tómt,“ sagði hann.

Þriðjudaginn 2. ágúst setti lögregla Talibana öryggisgirðingu í kringum húsið í Sherpoor og hélt blaðamönnum í fjarlægð frá því.

Háttsettur embættismaður Talibana sagði við Reuters að Ayman al-Zawahiri hefði dvalist í Helmand-héraði og flutt til Kabúl eftir að Talibanir náðu völdum í Afgnistan fyrir réttu ári.

Bandarískar leyniþjónustur sögðust „hárvissar“ um að Ayman al-Zawahiri hefði verið drepinn. Háttsettur bandarískur embættismaður sagði við blaðamenn að fram á síðasta dag hefði Zawahiri verið hættulegur Bandaríkjamönnum, bandarískum hagsmunum og öryggi. Eftir dauða hans ættu al-Kaída samtökin undir högg að sækja og óvissa ríkti um starfsemi þeirra.

Ayman al-Zawahiri tók við af Osama bin Laden sem leiðtogi al-Kaída árið 2011. Hann hafði áður verið helsti skipuleggjandi hreyfingarinnar og frumkvöðull. Hann átti ekki auðvelt með að hrífa fólk með sér og samkeppni við aðra hryðjuverkahópa íslamista hélt aftur af honum við blóðugar árásir á Vestrið.

Oft hefur verið orðrómur um að Ayman al-Zawahiri væri allur. Þá hefur honum löngum verið lýst með heilsulitlum.

Ekki er vitað til þess að Bandaríkjamenn hafi áður gert árás með dróna í Afganistan eftir að þeir fóru þaðan fyrir ári, í ágúst 2021. Nú er ljóst að bandaríska hernum er unnt að beita til að gera nákvæmar árásir í Afganistan án þess að nokkur bandarískur hermaður sé í landinu.

Spurt er hvort Ayman al-Zawahiri hafi fengið skjól í Kabúl með samþykki Talibana eftir valdatöku þeirra í ágúst 2021. Bandarískir embættismenn segja að svo sé og þar með hafi Talibanar brotið gegn samkomulagi sem við þá var gert um að banna vígamönnum al-Kaída að endurskipuleggja hreyfingu sína í Afganistan.

Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sagði að Talibanar hefðu „gróflega brotið“ Doha-samkomulagið við Bandaríkjastjórn.

Háttsettur bandarískur embættismaður sagði að fyrr á þessu ári hefðu Bandaríkjamenn komist að því að kona Zawahiris, dóttir og börn hennar, hefðu flust búferlum í „öruggt hús“ í Kabúl og síðan séð að Ayman al-Zawahiri væri þar líka. Eftir að hann kom í húsið sást hann aldrei yfirgefa það. Hann birtist oft á svölum hússins þar sem hann var að lokum grandað.

Undir forystu Bidens grandskoðuðu embættismenn gögnin frá leyniþjónustumönnunum. Forsetanum var gerð grein fyrir gangi málsins í maí og júní og 1. júlí var aðgerðaráætlun kynnt fyrir honum. Hann fékk lokatillögur 25. júlí og heimilaði síðan að gengið yrði til verks þegar tækifæri gæfist.

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …