Home / Fréttir / Bandaríkjamenn boða aukin hernaðarumsvif á Eystrasaltssvæðinu

Bandaríkjamenn boða aukin hernaðarumsvif á Eystrasaltssvæðinu

 

Jan Salestrand, aðstoðarvarnarmálaráðherra Svíþjóðar (tv), tekur á móti Robert Work, aðstoðarvarnarmálaráðherra Bandaræikjanna.
Jan Salestrand, aðstoðarvarnarmálaráðherra Svíþjóðar (tv), tekur á móti Robert Work, aðstoðarvarnarmálaráðherra Bandaræikjanna.

Bandaríkjamenn munu auka viðveru sína á Eystrasaltssvæðinu til að halda Rússum í skefjum. Þetta er niðurstaða fundar sem Robert Work, aðstoðarvarnarmálaráðherra Bandaríkjanna, hélt með háttsettum embættismönnum úr varnarmálaráðuneytum Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna þriðjudaginn 26. apríl í Stokkhólmi.

„Við látum áfram mjög mikið að okkur kveða á þessu svæði,“ sagði Work í frétt í Svenska Dagbladet (SvD) um fundinn. Þar segir einnig að á fundinum hafi verið rætt um sívaxandi og ögrandi hernaðarumsvif Rússa á Eystrasaltssvæðinu. „Við ræddum hvernig efla mætti fælingarmáttinn gagnvart Rússlandi,“ sagði Work.

Í sænska blaðinu er minnt á að Bandaríkjamenn hafi nýlega mótmælt miklu náflugi rússneskra orrustuþotna við bandarískan tundurspilli á alþjóðlegri siglingaleið á Eystrasalti. Robert Work sagði að flug Rússanna hefði verið mjög ófagmannlegt.

„Við höfum gert Rússum grein fyrir því að við teljum framferði þeirra mjög, mjög ögrandi og hættulegt þar sem það kunni að leiða til misskilnings,“ sagði hann.

SvD minnir á að Rússar hafi haft í frammi ögrandi tilburði við flugvélar sænska hersins.

Á embættismannafundi ríkjanna átta með Work var rætt um leiðir til að knýja Rússa til að halda aftur af sér. NATO hefur aukið loftrýmisgæslu aðildarlanda sinna á Eystrasalti. Ríkin á svæðinu auka miðlun upplýsinga sín á milli. Þá fjölgar heræfingum, einnig með þjóðunum utan NATO, Svíum og Finnum.

SvD rifjar upp að þegar árið 2014 hafi Barack Obama Bandaríkjaforseti ákveðið að auka viðveru bandarísks herafla í austur og mið Evrópu. Þá hafi bandaríska varnarmálaráðuneytið nýlega lagt fram tillögu um frekari aðgerðir í þessu efni og færu þær fyrir brjóstið á Rússum.

Markmið Bandaríkjastjórnar er meðal annars að fullvissa NATO-þjóðirnar um að þær geti treyst á stuðning Bandaríkjamanna kæmi til árekstra við Rússa.

Work lagði áherslu á að samhliða ráðstöfunum til að halda Rússum í skefjum væri þess gætt að stigmagna ekki spennuástand.„

„Við viljum áfram geta unnið með Rússum sameiginlegum hagsmunum til framdráttar,“ sagði Work.

Eyjan Gotland við austurströnd Svíþjóðar var til skamms tíma herlaus en vegna spennunnar eftir 2014 hefur sænskur herafli verið sendur þangað. Í SvD er Work spurður hve hernaðarlega mikilvægt Gotland yrði kæmi til átaka við Rússa. Hann segir að eyjan skipti höfuðmáli fyrir öryggi Eystrasaltsríkjanna.

„Við litum það mjög alvarlegum augum ef [Gotlandi] yrði ógnað,“ sagði Work.

Í lok fréttar SvD segir að nýlega hafi Douglas Lute, sendiherra Bandaríkjanna gagnvart NATO, sagt í nánustu framtíð myndi aðildarríkjum NATO ekki fjölga af ótta við að það yrði til að setja Rússa úr skorðum.

Blaðið spurði Work hvort ummæli sendiherrans um bann við stækkun NATO snertu einnig Svía. Aðstoðarráðherrann svaraði á þann veg að hann hefði ekkert heyrt um ummæli sendiherrans og menn ræddu mál sem þessi ekki í varnarmálaráðuneytinu.

Robert Work var hér landi síðsumars 2015 og vakti heimsókn hans ekki síst athygli fyrir orð sem hann lét falla á Keflavíkurflugvelli um nauðsyn þess að breyta dyraumbúnaði á flugskýli til að það nýttist fyrir nýja tegund bandarískra kafbátaleitarvéla. Síðan hefur bandaríska varnarmálaráðuneytið lagt fram tillögu í fjárlögum ársins 2017 til breytinga og endurnýjunar á hernaðarmannvirkjum á Keflavíkurflugvelli.

 

 

 

Skoða einnig

Bardagareyndur hershöfðingi settur yfir rússnesku herstjórnina í norðvestri

Þriggja stjörnu hershöfðinginn Aleksandr Lapin var 15. maí skipaður yfirmaður Leningrad-herstjórnarsvæðisins í Rússlandi. Svæðið er …